Deilibílar Flandurs eru nútímalegur valmöguleiki fyrir íbúa og atvinnurekendur á Grensásvegi 1
Flandur hefur tekið í notkun nýja lausn á íslenskum húsnæðismarkaði þar sem deilibílar verða hluti af daglegri þjónustu við íbúa.
Í samstarfi við Fasteignafélagið G1 hafa deilibílar Flandurs verið staðsettir í sérmerktum bílastæðum í bílakjallara nýrra íbúða og atvinnurýma við Grensásveg 1. Með því fá íbúar aðgang að bæði fólksbílum og sendibílum þegar þörf krefur, án tilheyrandi skuldbindinga.
„Við erum að færa deilibílinn þangað sem hann nýtist virkilega vel, beint inn í húsnæði á svæði þar sem margir kjósa að eiga ekki bíl,“ segir Anton Smári Rúnarsson, framkvæmdastjóri Flandurs. „Þegar fólk þarf bíl tímabundið, hvort sem um er að ræða stutt erindi eða stærri verkefni, er nú einfalt að bóka bíl og sækja hann strax. Deilibílar verða þannig hluti af nýtískulegu og vistvænu búsetuumhverfi við Grensásveg 1, þar sem þjónusta og sveigjanleiki eru í forgrunni.“
Þjónustan er hönnuð með raunverulegar aðstæður í daglegu lífi í huga. Íbúar geta valið á milli fólksbíla og sendibíla, eftir því hvort þörf er á að skjótast á milli staða eða vegna stærri innkaupa eða flutninga.
Bókun fer fram á einfaldan hátt í gegnum Flandur appið og hægt er að leigja bíl frá einni klukkustund og allt upp í heilan mánuð, allan sólarhringinn.
100% Rafbílar og hleðsla innifalin

Bílaflotinn er alfarið rafknúinn og er rafmagn innifalið í sérmerktum bílastæðum í húsinu, þannig að hægt er að hlaða bílana frítt á staðnum.
„Við viljum að upplifun kaupenda og íbúa á Grensásvegi 1 sé meira en fermetrar, hún á að vera þjónusta sem einfaldar lífið í takt við aðra þjónustu allt um kring í Skeifunni, Ármúla og Glæsibæ. “ segir Stefán Á. Magnússon, framkvæmdastjóri Fasteignafélagsins G1. „Með deilibílum í bílakjallaranum fá íbúar aðgang að bæði fólksbíl og sendibíl eftir þörfum það eykur valfrelsi og styrkir búsetugæði án þess að íbúar þurfi að reka sinn eigin bíl með tilheyrandi föstum kostnaði. Með tilkomu deilibíla Flandurs klárum við að uppfylla alla þjónustuþætti bílakjallarans sem við lofuðum kaupendum fyrir sölu á fyrstu íbúð, sem er aðgengi að deilibílum, aðgengi að leigustæðum og aðgengi að bæði hverfa- og hraðhleðslu. Allt er þetta þjónusta og þar með kostnaður sem fólk getur valið um, en slíkt val er lífsgæði sem vonandi aðrir byggingaraðilar taka upp á næstu árum og áratugum."