Mannauðstefna
Mannauðsstefna Brimborgar byggir á sjálfbærnistefnu félagsins og undirstefnum hennar sem eru að finna hér á vefnum og er í samræmi við kjörorð félagsins, Öruggur staður til að vera á, sem kynnt var til sögunnar árið 2003. Stefnur og markmið félagsins skulu ávallt endurspeglast í gildum þess og loforði skipulagsins um að vera öruggur staður til að vera á. Hvort sem átt er við vinnustað eða stað til verslunar og þjónustu. Kjörorð fyrirtækisins er: Brimborg - öruggur staður til að vera á.
Markmið
Með mannauðsstefnu Brimborgar sækist Brimborg eftir því að vera eftirsóknarverðasti og öruggasti vinnustaður bílgreinarinnar og meðal þeirra framsæknustu í vinnuverndar- og jafnréttismálum á Íslandi þar sem fjölbreytni og víðsýni ræður ríkjum.
Mannauðsstefna Brimborgar skal tryggja að hjá Brimborg starfi fólk með fjölbreyttan bakgrunn til að tryggja Brimborgarteyminu framúrskarandi þekkingu á öllum sviðum bíl- og atvinnutækjagreinarinnar ásamt ökutækjaleigu og þörfum viðskiptavina og geti þannig uppfyllt framtíðarsýn, hlutverk, gildi og markmið sjálfbærnistefnu félagsins.
Ráða til samstarfs og halda í fagfólk af báðum kynjum með gildismat sem samrýmist kjarnagildum og meginreglum fyrirtækisins. Fólk sem metur mikils orð og gjörðir eins og sjálfbærni, ástríðu, jafnrétti, fjölbreytni, víðsýni, ábyrgð, árangur, frumkvæði, forvitni, þekkingarleit og samvirkni.
Brimborg starfar í atvinnugreinum þar sem samkeppni er mikil og miklar kröfur eru gerðar til hæfni hvers liðsmanns í teymi til að veita viðskiptavinum faglega og framúrskarandi þjónustu svo félagið nái framúrskarandi árangri á öllum sviðum. Því er stöðug þróun mannauðsins mikilvæg með faglegum ráðningum, þjálfun og starfsþróun, endurgjöf og hvatningu, góðum starfskjörum, jafnrétti og vellíðan sem byggt er undir með áherslu á mannréttindi, góða stjórnarhætti og gott viðskiptasiðferði.
Ráðningarferli
- Umsóknarferli, kröfur til starfs og ráðningarferli er gagnsætt og í samræmi við mannauðsstefnu og aðrar stefnur félagsins.
- Starfsauglýsingar eru skýrar svo óumdeilt sé hvaða kröfur séu gerðar til starfsfólks.
- Umsóknarferli er rafrænt sem er umhverfisvænt og skjótvirkt til að spara öllum tíma í ferlinu.
- Sama ferli gildir um innri og ytri ráðningar.
- Framkvæmdastjóri viðeigandi viðskiptasviðs og stjórnandi þeirrar deildar sem sækist eftir nýjum liðsfélaga skjal sjá um faglegt mat á umsækjendum með það að markmiði að tryggja að hæfasti umsækjandinn sé ráðinn. Við matið er horft til mannauðsstefnu Brimborgar og annarra stefna félagsins, hvort persónuleg gildi umsækjanda samsvari þeim, hvernig umsækjandi getur styrkt teymið og menningu þess t.d. með aukinni fjölbreytni eða einstakri hæfni og hvernig hann uppfyllir sértækar kröfur starfsins.
- Horft er til umsóknar umsækjanda, hún borin saman við kröfur til starfsins og lögð er áhersla á að ekki sé misræmi milli lýsingar umsækjanda á hæfni sinni og raunverulegri getu. Ítarlegt mat á stafrænum starfsumsóknum, starfræn viðtöl, hefðbundin viðtöl, próf og verkefni eru hluti ráðningarferlis þar sem sérstaklega er kannað hvort umsækjandi standist kröfur sem gerðar eru til starfsins
- Mannauðssvið aðstoðar viðeigandi viðskiptasvið við ráðningarferlið og fer yfir framkvæmd þess áður en ráðning er staðfest til að tryggja aðkomu óháðs aðila
- Að lokinni ráðningu er öllum umsækjendum svarað
- Við ráðningu er gerður skriflegur ráðningarsamningur við umsækjanda áður en hann hefur störf sem er byggður á skriflegri starfslýsingu. Eftir undirritun ráðningarsamnings, áður en umsækjandi hefur störf, skal hann vera búinn að skila inn viðeigandi skjölum og vottorðum skv. ráðningarferli
- Nýtt starfsfólk fer í nýliðakynningu í kjölfar ráðningar og síðan í þjálfun í þeirri deild sem hann er að hefja störf í og er lögð áhersla á að hann komist hratt inn í starfið
- Faglega er staðið að ákvörðunum um starfslok þar sem byggt er á árangri í starfi, reynslu, mikilvægi í teymi og viðhorfi. Þegar líða tekur að starfslokum vegna aldurs er horft til fyrrgreindra þátta auk annarra sértækra þátta með það að markmiði að ná farsælli lausn fyrir báða aðila
Þjálfun og starfsþróun
Í ljósi síbreytilegs samkeppnisumhverfis þá þróum við stöðugt störf okkar og öflum okkur þekkingar til að ná framúrskarandi árangri.
- Starfsumhverfið hjá Brimborg einkennist af metnaði starfsfólks til að ná árangri með samvinnu í öflugu teymi og milli öflugra teyma og þannig veitum við viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu svo þeir nái markmiðum sínum eins og við.
- Við hlustum á viðskiptavini og samstarfsfólk og nýtum hæfileika okkar til að finna bestu lausnirnar hratt og vel.
- Við erum forvitin, óhrædd við breytingar, hugrökk, fordómalaus, víðsýn, lærum af mistökum og gleðjumst yfir árangri.
- Við erum stolt af starfi okkar, sinnum því glöð af virðingu og trúmennsku með gagnsæi og traust að leiðarljósi.
- Við leggjum áherslu á sjálfbærni, hugum að framtíðinni við ákvarðanatöku með áherslu á snyrtimennsku og góða umgengni við umhverfið, tryggjum að ákvarðanir okkar hafi jákvæð áhrif á samfélagslega þætti og virðum lög, reglur og góða viðskiptahætti með góðum stjórnarháttum.
Við sköpum sterk ástríðufull, sjálfstæð, teymi með öfluga leiðtoga sem tileinka sér og lifa gildin okkar. Við hvetjum stjórnendur og starfsfólk að hafa augun hjá sér hvað varðar þörf fyrir þjálfun og fræðslu hjá þeim sem einstaklingum eða í teymi þeirra, sýna frumkvæði, fara á vönduð, viðeigandi námskeið og ráðstefnur, kynna sér áhugavert efni í bókum, tímaritum eða á netinu og í kjölfarið miðla nýrri þekkingu til liðsfélaga.
Endurgjöf og hvatning
Stjórnendur beita gagnadrifinni stjórnun til að tryggja faglega endurgjöf, hvatningu og faglegar ákvarðanir, eru víðsýnir, sífellt tilbúnir í að endurhugsa það sem hefur alltaf verið gert, hvetja starfsfólk til að nýta sér tækifæri til þjálfunar og fræðslu og duglegir að deila upplýsingum í anda gagnsæis með reglulegum samskiptum við starfsfólk.
Stöðugt er leitast við að þróa hæfni og getu starfsfólks, vinnubrögð og ferla til að ná framúrskarandi árangri sem eykur um leið tækifæri starfsfólks sem eftir því sækist til starfsþróunar, nýrra verkefna og tækifæra.
Starfsfólk er hvatt til að hafa frumkvæði að endurmenntun en taki einnig þátt í endurmenntun sem stjórnendur félagsins, birgjar og aðrir samstarfsaðilar hafa frumkvæði að. Starfsfólk er hvatt til að nýta sér starfsmenntasjóði og önnur tækifæri til að efla hæfni sína. Starfsfólk af erlendu bergi brotið er sérstaklega stutt til íslenskukennslu hafi það frumkvæði að sækja um þannig nám.
Starfskjör, jafnrétti og vellíðan
Við leggjum áherslu á jafnvægi milli vinnu og einkalífs, gætum þess að jafnrétti ríki á öllum sviðum og tryggjum jöfn tækifæri með því að fylgja formlegri jafnréttisstefnu, jafnlaunastefnu, jafnlaunavottun og hjá félaginu starfar jafnréttisnefnd sem fylgist með að farið sé að lögum um jafnréttismál hjá fyrirtækinu, kannar réttmæti ábendinga um að frá þeim sé vikið og bregst við með viðeigandi hætti.
Í jafnlaunastefnu félagsins segir að kyn og aðrir persónueiginleikar sem ekki tengjast inntaki starfs eða frammistöðu í starfi skulu ekki hafa áhrif á laun eða launaþróun og að starfsfólk skuli njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt eða sambærileg störf. Launamunur verði aðeins skýrður á grundvelli mismunandi ábyrgðar, vinnuframlags, menntunar, starfsreynslu, hæfni, eðli starfs, verðmæti þess og frammistöðu í starfi.
Til að tryggja sanngirni og samræmi í launamálum hefur Brimborg innleitt jafnlaunastefnu og jafnlaunavottun sem byggir á henni og hafa stjórnendur aðgang að miðlægum viðmiðum um launabyggingu félagsins á hverjum tíma og launaþróun á ytri markaði og brugðist er við og unnið að umbótum, bæði í kjölfar reglulegrar rýni og í kjölfar ábendinga. Við auglýsingu starfa, ráðningar eða tilfærslur í starfi skal kynjaskipting höfð til hliðsjónar verði því viðkomið vegna framboðs með það að markmiði að stuðla að jöfnuði.
Við sýnum skilning þegar óvæntar aðstæður á fjölskylduhögum koma upp, höfum innleitt vinnutímastyttingu í öllum deildum félagsins þar sem kjarasamningar segja til um slíkt, bjóðum upp á sveigjanlegan vinnutíma þar sem því er við komið og við tryggjum að allir starfstengdir viðburðir og starfstengd námskeið séu haldin á vinnutíma.
Allir eru hvattir til að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs hvort sem um er að ræða feður eða mæður, reynt er af fremsta megni að koma til móts við sveigjanlega töku fæðingarorlofs og lögð er áhersla á að starfsfólk eigi auðvelt með að snúa aftur til vinnu eftir töku fæðingarorlofs.
Brimborg fylgir öryggisstefnu.
Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni eða annað ofbeldi, hvort sem er andlegt eða líkamlegt, líðst ekki, fyrirbyggjandi ráðstafanir viðhafðar og atvik af þessu tagi geta leitt til uppsagnar á starfi. Starfsfólk sem verður fyrir slíkri áreitni skal tilkynna mál án tafar skv. viðeigandi ferli.
Starfskjör stjórnar, stjórnenda og starfsfólks tryggir samkeppnishæf kjör sem hefur það að markmiði að laða að og halda í mjög hæft starfsfólk þ.e. samkeppnishæf laun, niðurgreiddan hádegismat, gott aðgengi að kaffi í öllum deildum, fríðindi við kaup á bílum, hjólbörðum og öðrum bílatengdum vörum og þjónustu.
Mannréttindi
Sérhver manneskja er borin frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna kveður á um mannréttindi sem allir eiga jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. Starfsfólki skal því ekki mismunað á grundvelli fyrrgreindra þátta né hvað varðar aldur, kynhneigð, hjúskaparstöðu, fötlun eða atgervi og félagið virðir rétt allra til félagafrelsis og kjarasamninga.
Að öðru leiti vísast í sérstaka mannréttindastefnu félagsins.
Góðir stjórnarhættir og gott viðskiptasiðferði
Stjórn hefur samþykkt formlegt skipulag félagsins, stjórnarháttayfirlýsingu, starfsreglur stjórnar, sjálfbærnistefnu, mannauðsstefnu, jafnréttisstefnu, jafnlaunastefnu, mannréttindastefnu, stefnu gegn spillingu og mútum, persónuverndarstefnu og leggur ríka áherslu á að stjórnarmenn, stjórnendur og starfsfólk horfi til kjörorðs félagsins, Öruggur staður til að vera á og kjarnagilda þess. Stjórn, stjórnendur og starfsfólk Brimborgar skulu því viðhafa góða stjórnarhætti sem samræmast lögum, reglum, heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum með virðingu fyrir samkeppnislögum og skattalögum með það að markmiði að tryggja sterka innviði, gagnsæi og ábyrgð.
Góðir stjórnarhættir leiða til aukinnar ábyrgðar stjórnar, stjórnenda og starfsfólks félagsins gagnvart öllum hagaðilum eins og hluthöfum, viðskiptavinum, starfsmönnum, birgjum og samfélaginu í heild og minnkar líkur á hagsmunaárekstrum. Viðskiptasiðferði er í hávegum haft gagnvart öllum hagaðilum þar sem hvorki mútur né spilling er viðhöfð né liðin. Félagið hefur innleitt ferli og reglur til varnar peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem viðeigandi starfsmenn hafa undirritað. Félagið virðir réttindi til persónuverndar í samræmi við formlega persónuverndarstefnu.
Stjórnarmenn, stjórnendur og starfsfólk skulu ekki þiggja stórar gjafir, þjónustu, skemmtun eða persónulegan greiða sem með réttu mætti álykta að gæti haft áhrif á ákvarðanatöku og leitt til hagsmunaárekstra. Minniháttar gjafir er í lagi að þiggja og sama á við um boð um skemmtun sem sé innan marka viðurkenndrar viðskiptagestrisni en þó skal tilkynna slíkar gjafir eða boð til næsta yfirmanns. Fái starfsfólk tilboð sem ekki samrýmast lögum eða eðlilegum viðskiptaháttum eða jafnvel hótanir í tengslum við störf sín ber viðkomandi að tilkynna það yfirmanni sínum án tafar.
Í samræmi við stefnu um vernd uppljóstrara ber starfsfólki að tilkynna atvik til næsta yfirmanns eða beint til yfirstjórnar sem þeir telja að séu lögbrot eða á mörkum góðra viðskiptahátta eða góðs siðferðis og er fyllsta trúnaðar gætt sé þess óskað og gjaldi þeir þess á engan hátt í starfi.
Viðskiptavinir sem og aðrir hafa tækifæri í gegnum stafræna farvegi á vefsvæðum félagsins eða með svörun gæðakannana að koma ábendingum, hrósi eða kvörtunum á framfæri sem er strax komið í ferli með því að upplýsa viðeigandi starfsfólk og stjórnendur svo bæta megi ferli, vinnubrögð, þjálfun og þjónustu.
Félagið styður við málefni sem tengjast á einhvern hátt starfsemi félagsins, styðja við rekstrarleg markmið þess, markmið um umhverfislega sjálfbærni, félagslega sjálfbærni og sjálfbæra stjórnarhætti og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Stefnur, nefndir og skipulag
Mannauðsstefnan byggir á fjölmörgum öðrum stefnum, nefndum og skipulagi
- Mannauðsstefna og öryggisnefndir
- Sjálfbærnistefna
- Skipulag
- Jafnréttisstefna, jafnlaunastefna og jafnréttisnefnd
- Mannréttindastefna
- Persónuverndarstefna
- Stefna um vernd uppljóstrara
- Stefna gegn spillingu og mútum
- Umhverfisstefna og umhverfisnefnd
- Innkaupastefna og innkaupanefnd
- Stjórnarháttayfirlýsing
- Starfsreglur stjórnar
Mannauðsstjóri er ábyrgur fyrir mannauðsstefnu félagsins og hún er kynnt fyrir nýliðum og reglulega fyrir starfsfólki auk þess sem stefnur eru aðgengilegar í gæðakerfi félagsins og á vef þess.
Uppfært þann 26.5.2024