Umhverfisstefna
Umhverfisstefna Brimborgar ber heitið Visthæf skref og var innleidd árið 2007 og er í samræmi við kjörorð félagsins, Öruggur staður til að vera á, sem kynnt var til sögunnar árið 2003. Í umhverfisstefnunni er lögð áhersla á raunhæf skref til mildunar neikvæðra áhrifa og styrkingar jákvæðra áhrifa á umhverfið. Félagið hefur skrifað undir loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar og fylgir lögum og reglum um áhrif reksturs félagsins á umhverfi sitt.
Umhverfisáherslur
Félagið hefur undanfarin ár lagt áherslu á:
- Mælingu á magni úrgangs, flokkun og endurvinnslu hans
- Mælingu á rafmagnsnotkun og rafmagnssparnað t.d. með fjárfestingum í LED lýsingu
- Mælingu á heitavatnsnotkun og heitavatnssparnað í fasteignum sínum
- Mælingu á kaldavatnsnotkun og sparnað í notkun þess
- Við endurbætur fasteigna og nýbygginga að horfa til umhverfismildandi hönnunar og framkvæmda
- Mælingu á pappírsnotkun og minnkun hennar með áherslu á stafrænar lausnir
- Minnkun á notkun jarðefnaeldsneytis með fjárfestingu í ökutækjum fyrir rekstur félagsins sem eru knúin rafmagni að hluta eða öllu leiti
- Innflutning og markaðssetningu á visthæfustu gerð ökutækja sem fáanleg eru frá birgjum félagsins
Mælingar
Félagið hefur í nokkur ár, með aðstoð hugbúnaðar Klappa Grænna Lausna, mælt raforku, heita- og kaldavatnsnotkun, notkun jarðefnaeldsneytis og magn hirts úrgangs, flokkun hans og endurvinnslu.
Umhverfisuppgjör
Stórt vistskref í samræmi við umhverfisstefnuna Visthæf skref og kjörorð félagsins, Öruggur staður til að vera á, var tekið þegar félagið innleiddi í fyrsta sinn fyrir rekstrarárið 2021 umhverfisuppgjör sem mælir áhrif starfsemi félagsins á umhverfið byggt m.a. á fyrrgreindum gögnum.
Umhverfisuppgjörið er hluti heildstæðs sjálfbærniuppgjörs sem Brimborg birtir fyrir rekstrarárið 2021 í fyrsta skipti fyrir öll rekstrarsvið félagsins á öllum starfsstöðvum um allt land með ítarlegum upplýsingum um áhrif starfsemi sinnar á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS). Klappir Grænar Lausnir hafa aðstoðað við gerð sjálfbærniuppgjörsins, sem byggir á þeim upplýsingum sem Klappir hugbúnaðurinn hefur safnað saman yfir árið, ásamt upplýsingum sem safnað er í upplýsingatæknikerfum Brimborgar og upplýsingum frá þriðja aðila.
Brimborg er fyrst bíla- og atvinnutækjaumboða á Íslandi og fyrsta ökutækjaleigan á Íslandi sem gefur út heildstætt sjálfbærniuppgjör.
Sjálfbærniuppgjörið fer eftir alþjóðlegum stöðlum um UFS mælikvarða (e. ESG standards) og hefur að geyma allar helstu upplýsingar um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti Brimborgar í samræmi við UFS-leiðbeiningar sem Nasdaq á Íslandi og Norðurlöndunum gáfu út árið 2019.
Í sjálfbærniuppgjöri Brimborgar 2021 er að finna ítarlegar, tölulegar, upplýsingar um áhrif Brimborgar á umhverfi sitt, samfélagslega þætti og stjórnarhætti. Enska útgáfu sjálfbærniuppgjörsins má finna undir Brimborg Sustainability Report 2021.
Markmið og aðgerðaáætlun
Brimborg vinnur að innleiðingu mælanlegra markmiða og aðgerðaráætlun í umhverfismálum. Þau vistskref sem stefnt er að á árinu 2022 eru m.a. innleiðing:
- Mælanlegra markmiða byggða á umhverfisuppgjöri ársins 2021
- Viðeigandi Heimsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna
- Innleiðing ferla fyrir stjórn og framkvæmdastjórn vegna umsjónar og stjórnunar á loftlagstengdri áhættu
- Umhverfisnefndar
- Mats á umhverfisáhrifum fasteigna félagsins og BREEAM vottunar við endurbætur og nýbyggingar sem er alþjóðlegt vottunarkerfi sem er tekið út af þriðja aðila
- Aðgerðaráætlunar til að ná markmiðum þar sem meðal annars verður lögð áhersla miðað við umsvif félagsins að draga úr:
- Úrgangi - tölulegt markmið í vinnslu um minnkun úrgangs
- Bæta flokkun - flokkun verði yfir 90% af heildarúrgangi
- Auka endurvinnslu - endurvinnsla verði yfir 90% af heildarúrgangi
- Pappírsnotkun - tölulegt markmið í vinnslu en stefnt að minnkun pappírsnotkunar
- Rafmagnsnotkun - tölulegt markmið í vinnslu en bæði stefnt að minnkun rafmagnsnotkunar frá almenna dreifikerfinu og innleiða staðbundna framleiðslu rafmagns
- Notkun á heitu vatni - tölulegt markmið í vinnslu en bæði stefnt að minnkun heitavatnsnotkunar og innleiðingar staðbundinnar framleiðslu á heitu vatni
- Notkun á köldu vatni - tölulegt markmið í vinnslu en stefnt að minnkun kaldavatnsnotkunar
- Notkun á jarðefnaeldsneyti - notkun minnki um 25% mælt í kWst af orku frá jarðefnaeldsneyti
- Losun koltvísýringsígilda (CO2í) vegna úrgangs frá rekstri Brimborgar í samræmi við minnkun úrgangs, betri flokkun og endurvinnslu
- Losun koltvísýringsígilda (CO2í) vegna heildarorkunotkunar í rekstri Brimborgar - losun minnki um 20% með minnkun notkunar á jarðefnaeldsneyti
- Losun koltvísýringsígilda (CO2í) vegna samgangna starfsmanna - losun minnki um 5%
- Losun koltvísýringsígilda (CO2í) vegna aðkeypts flutnings og dreifingar - tölulegt markmið í vinnslu en þar sem Brimborg hefur litla stjórn á þessum þætti mun taka tíma að setja markmið og innleiða aðgerðir. Þó skal á árinu horfa til þess að velja frekar flutningsmáta sem losa minna af koltvísýring.
- Úrgangi - tölulegt markmið í vinnslu um minnkun úrgangs
Kolefnisjöfnun
Í lögum um loftslagsmál er kolefnisjöfnun skilgreind á þann hátt að „Þegar aðili hlutast til um aðgerðir annars aðila til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og/eða binda kolefni úr andrúmslofti og notar staðfestingu á slíkum samdrætti eða bindingu til að jafna út sína eigin losun að hluta eða öllu leyti“.
Með nokkurri einföldun má því segja að kolefnisjöfnun felist í því að einstaklingar eða lögaðilar bæti fyrir eigin losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) með því að fjármagna verkefni sem a) koma í veg fyrir losun á samsvarandi magni GHL annars staðar eða b) fjarlægja samsvarandi magn GHL úr andrúmsloftinu.
Þegar tekin hefur verið ákvörðun um að kolefnisjafna losun fyrirtækis að hluta til eða í heild sinni er mikilvægt að velja verkefni sem hafa raunverulegan loftslagsávinning í för með sér. Varhugavert getur verið að staðhæfa um kolefnishlutleysi eða kolefnisjöfnun ef ekki er til staðar vottað losunarbókhald og á móti því vottaðar kolefniseiningar sem og vottun um kolefnishlutleysi.
Umhverfisstofnun mælir með að eftirfarandi viðmið séu í öllum tilvikum höfð til hliðsjónar við kaup opinberra aðila á kolefniseiningum:
- Raunverulegur árangur – verkefni fer sannanlega fram og ber tilskilinn árangur.
- Mælanlegur árangur – unnt er að mæla árangur með viðurkenndum aðferðum.
- Varanlegur árangur – árangur af verkefni er varanlegur og gengur ekki til baka.
- Er viðbót – árangur hefði ekki komið til án kaupa á kolefniseiningum.
- Ráðstafanir til að koma í veg fyrir tvítalningu– árangur af verkefni er aðeins nýttur einu sinni til kolefnisjöfnunar.
- Verkefni leiðir ekki til kolefnisleka – árangur byggist ekki á því að losun flytjist annað.
- Óháð vottun – óháður vottunaraðili staðfestir árangur af verkefni.
CO2-ígildi, eða koldíoxíðígildi, er sú mælieining sem er notuð til að halda utan um losunartölur fyrir gróðurhúsalofttegundir. Þannig samsvarar eitt tonn af CO2-ígildi einu tonni af koldíoxíði eða því magni annarra gróðurhúsalofttegunda (t.d. metans, glaðlofts eða F-gasa) sem hefur sambærilegan hnatthlýnunarmátt (e. global warming potential).
Talað er um hlýnunarmátt mismunandi gróðurhúsalofttegunda. Vegna þess hvað losun koldíoxíðs er margfalt meiri en losun annarra gróðurhúsalofttegunda er það mikilvægasta gróðurhúsalofttegundin. Engu að síður er mikilvægt að taka tillit til ólíkra áhrifa mismunandi lofttegunda þegar meta á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Í þessu skyni er hverri lofttegund því gefinn tiltekinn stuðull sem miðast við þessi ólíku hlýnunaráhrif og öll losun er síðan umreiknuð yfir í CO2-ígildi. Eitt tonn af koldíoxíðígildi samsvarar einu tonni af koldíoxíði eða því magni gróðurhúsalofttegunda sem hefur sambærilegan hnatthlýnunarmátt.
Vottuð kolefniseining í bið er kolefniseining sem eru skráð er í Loftslagsskrá sem vottuð, óstaðfest, kolefniseining sem verður virkjuð eftir ákveðin tíma þegar binding hefur verið staðfest.
Til að votta kolefniseiningu þarf að fara eftir vottuðum stöðlum og vottunaraðili þarf að taka út hvort að framleiðandi fari eftir stöðlum við framleiðslu á kolefniseiningum, þ.e. standi við þær skuldbindingar sem þarf að standa við til að fá vottun.
Þá er mikilvægt að ekki verði til tvítalning (e. Double-counting) á kolefniseiningum þegar kemur að því að nota kolefnisbindingu til að jafna á móti losun þannig að enginn vafi leiki á fullyrðingum um kolefnishlutleysi. Þetta er tryggt með því að skrá kolefniseiningar í sérstaka kolefnisskrá. Í kolefnisskránni er haldið utan um inneign, viðskipti og afskráningu á vottuðum kolefniseiningum.
Kolefnisverkefni skulu tryggja að kolefnisbinding sé vottuð samkvæmt viðurkenndum stöðlum s.s. Skógarkolefni, VERRA - Verified Carbon Standard (VCS) eða Gold Standard. Þetta eru óháðir staðlar sem hafa verið samdir af óháðum þriðja aðila. Vottun er strangt ferli sem veitir sjálfstæða staðfestingu á losun og tryggir að kolefnisjöfnun þín sé raunveruleg og varanleg. Gæði kolefniseininga verða því ekki tryggð nema með vottun frá slíkum aðila. Þegar þú velur kolefnisbindingu skaltu leita að annað hvort vottuðum eða a.m.k. staðfestum verkefnum til að tryggja gæði fjárfestingar þinnar og að um ósvikna kolefnisbindingu sé að ræða.
Kolefnisjöfnun hjá Brimborg
Brimborg mun skoða og leggja mat á kosti og galla kolefnisjöfnunar en sú aðferð er ekki óumdeild. Það sem verður skoðað sérstaklega er:
- Kolefnisjöfnunarstarfsemi hér á landi sem er ekki vottuð og hvenær búast má við að vottuð starfsemi verði í boði enda ekki hægt að kaupa vottaðrar kolefniseiningar fyrr en vottun er staðfest
- Hvernig innleiða megi vottað losunarbókhald
- Hvernig innleiða megi vottun um kolefnishlutleysi
- Hvort fjármunum sem fara til kolefnisjöfnunar nýtast betur til fjárfestinga í tækni, ferlum, vinnubrögðum, þjálfun og almennri vitundarvakningu í umhverfismálum og öðru sem dregur úr eða kemur í veg fyrir losun hjá Brimborg til framtíðar
- Hvort trjárækt, endurheimt votlendis og endurheimt landgæða, sem í sjálfu sér eru jákvæðar aðgerðir, séu réttu leiðirnar m.t.t. kostnaðar og ávinnings
- Sérfræðingar á sviði umhverfisverndar hafa varað við því að kolefnisjöfnun sé mögulega ekki sjálfbær til lengri tíma litið. Spurningar hafa t.d. vaknað varðandi langtímagetu skóga og jarðvegs til kolefnisgeymslu þar sem hætta er á skógarhöggi, skógareldum, óveðri, sjúkdómum í trjám eða öðrum áhrifum af völdum loftlagsbreytinga og sama gæti átt við um endurheimt votlendis og landgræðslu.
Uppfært 15.2.2022