Fara í efni

Jafnréttisstefna

Tilgangur og gildissvið
Jafnréttisstefnunni er ætlað að tryggja þau réttindi sem fram koma í II-III kafla laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Með jafnréttisstefnu vill fyrirtækið fara að lögum og sjá til þess að fyllsta jafnréttis sé gætt.  Jafnréttisstefna Brimborgar var uppfærð í febrúar 2022 og skal endurskoða næst í febrúar 2025 eða á þriggja ára fresti.

Jafnréttisstefnunni er ætlað að tryggja að starfsfólk verði metið á eigin forsendum og konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá (hér eftir nefnt, öll kyn), eigi í reynd jafna möguleika til starfa og starfsþróunar og fái jöfn laun ef um er að ræða sömu ábyrgð, vinnuframlag, eðli starfs og verðmæti, hæfni, menntun, frammistöðu og reynslu. Þannig verði tryggt að mannauður fyrirtækisins nýtist sem best, starfsánægja og tryggð verði meiri sem skili sér í betri þjónustu og ánægðari viðskiptavinum.

Markmið stefnunnar er jafnframt að tryggja jöfn tækifæri alls starfsfólks og er hún jafnframt leiðarljós um starfshætti sem stuðla að jafnrétti. Þá er það einnig markmiðið að útrýma kynbundinni mismunun, sé hún til staðar. Virk jafnréttisstefna stuðlar að betri nýtingu á hæfileikum og þekkingu starfsfólks.

Kjaramál
Allt starfsfólk þ.e. öll kyn, starfsfólk af erlendum uppruna sem og fatlaðir svo dæmi séu tekin, njóti sömu launakjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf eins og að ofan greinir, sbr. 6. gr. laga 150/2020. Launamunur skal vera rökstuddur skriflega og skal einungis endurspegla mismunandi ábyrgð, vinnuframlag, eðli starfs og verðmæti, hæfni, menntun, frammistöðu, og reynslu.

Ráðningar og störf
Við nýráðningar og tilfærslur í starfi skal stefnt að jafnri kynjaskiptingu innan sviða og í hinum ýmsu störfum innan sviða þar sem því er viðkomið vegna framboðs. Alltaf skal þó ráða þá einstaklinga sem taldir eru hæfastir óháð kyni, nema tilgangurinn sé að stuðla að jafnri kynjaskiptingu innan sviða sbr. 12. gr. laga nr. 150/2020.

Starfsþjálfun og endurmenntun
Öll kyn njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar sbr. 12. gr. laga nr. 150/2020

Þátttaka í nefndum og starfshópum
Við skipun í nefndir og starfshópa ræður fagþekking mestu um val einstaklinga, en stefnt skal að jöfnum hlut kynja þar sem því verður við komið.

Líðan starfsfólks
Lögð er áhersla á að starfsfólki líði vel, aðbúnaður sé góður, fyrirtækjamenningin sé jákvæð og hvetjandi og að það sé gott að koma til vinnu. Unnið sé markvisst að heilsuvernd og heilsueflingu starfsfólks, t.d. með fyrirlestrum, þátttöku í fyrirtækjakeppnum eins og Hjólað í vinnuna á vegum ÍSÍ, flensusprautu ofl. sem tengist heilsu. Þá er lögð rík áhersla á að starfsfólk taki þátt í hvers konar umbótum í starfsemi fyrirtækisins.

Samræming vinnu og einkalífs
Lögð er áhersla á að koma til móts við starfsfólk varðandi sveigjanlegan vinnutíma þar sem því verður við komið, þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsfólks og þarfa atvinnulífs. Tekið er tillit til kvenna á meðgöngutíma, foreldra við umönnun ungbarna og óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna sbr. 13. gr. laga nr. 150/2020

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og einelti
Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni eða annað ofbeldi verður ekki liðið og ráðstafanir gerðar til að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir kynbundnu ofbeldi sbr. 14. gr. laga nr. 150/2020. Viðbragðsáætlun og boðleiðir vegna slíkra mála verði öllum sýnilegar og aðgengilegar.

Framkvæmd og eftirfylgni
Hjá fyrirtækinu skal starfa jafnréttisnefnd. Í henni eiga sæti framvæmdastjóri Mannauðssviðs, einn fulltrúi starfsfólks skipaður af starfsfólki fyrirtækisins og annar skipaður af forstjóra og heyrir nefndin undir hann. Nefndin er skipuð til tveggja ára í senn.

Uppfært 15.2.2022