Fara í efni

Rafbílar meira en 40% hagstæðari í akstri en bensínbílar

Rafbílar meira en 40% hagstæðari í akstri en bensínbílar
Þróun hlutfalls rafbíla af kaupum einstaklinga, fyrirtækja og bílaleiga á fólksbílum frá 2012 þegar rafbílavæðingin hófst og til ársins 2025.

Rafbíllinn 43,6% hagstæðari en bensínbíll

Með innleiðingu km gjalds á öll ökutæki og lækkun á gjöldum á eldsneyti samhliða þá er áhugavert að endurreikna orku- og km kostnað ökutækja eftir orkugjöfum. Niðurstaðan er að rafbíllinn er enn með yfirburði eða 43,6% hagstæðari en sambærilegur bensínbíll og þá er ekki tekið tilliti til um 60% lægri þjónustu- og viðhaldskostnaðar rafbíls.

Forsendur: Bensínverð 183 kr / lítra, km gjald 6,95 kr, kWh í heimahleðslu kosti 21 kr / kWh, bensínbíllinn eyði 7 l / 100 km, rafbíllinn eyði 20 kWh per 100 km og akstur 14.000 km á ári (38 km / dag) sem er jafnt og meðaltal landsmanna.

Niðurstaða: Rafbílinn er þá 43,6% hagstæðari í akstri. Í þessu dæmi er ekki tekið tillit til þess að rafbíllinn er að auki um 60% hagstæðari í þjónustu og viðhaldi.

  Bensín PHEV Electric
Heildarorkukostnaður 179.340 78.960 58.800
Orkukostnaður per km 12,81 5,64 4,20
km gjald per km 6,95 6,95 6,95
Alls orka + km gjald 19,76 12,59 11,15
Hlutfallslegur mismunur m.v. Eldsn. Bíl   -36,3% -43,6%

Um 37 þúsund rafbílar í landinu

Bifreiðar skráðar „Í umferð“ á Íslandi í upphafi árs 2026 eru 294.245 og þar af eru 254.550 fólksbílar. Af fólksbílum í umferð eru 36.657 hreinir rafbílar eða 14,4%. Á árinu 2025 voru nýskráðir 6.755 rafbílar sem var 41% af nýskráningum fólksbíla. Hlutfallið var þó mismunandi eftir kaupendahópum. Hjá einstaklingum var það 62%, hjá fyrirtækjum 57,4% en hjá bílaleigum aðeins 9,1%.

Smá reikningsleikfimi: Ef nýskráðar verða um 15.000 fólksbifreiðar á árinu 2026 og afskráðar um 9.500 fólksbifreiðar (meðaltal síðustu 4 ára) þá verða í landinu 260.050 fólksbifreiðar í lok árs. Ef 80% af nýskráðum fólksbílum á árinu 2026 verða hreinir rafbílar eða 12.000 og engir afskráðir (rafbílar eru það nýir) þá verða í landinu 48.657 hreinir rafmagns fólksbílar. Það myndi gera 18,7% af öllum fólksbílum í landinu.

Rafbílar fljótlega fleiri en dísilbílar á Íslandi

Bensínbílar eru enn stærsti flokkurinn í fólksbílaflota landsmanna (92.568), dísilbílar koma næst (76.846) og svo rafbílar (36.657). Miðað við líklegan vöxt rafbíla af heildarsölu, stöðugt minnkandi hlutdeild dísilbíla og vaxandi afskriftarhlutfall dísilbíla þá er líklegt að rafbílar verði búnir að ýta dísilbílum úr öðru sætinu um mitt ár 2028.

Ein af stóru breytingunum sem skýrir aukna hlutdeild rafbíla er aukið úrval þeirra. Árið 2018 voru á öllum markaðnum aðeins 13 mismunandi gerðir rafbíla til sölu (ekki tegundir heldur gerðir). Á árinu 2025 voru 114 mismunandi gerðir rafbíla til sölu. Þetta þýðir að rafbílar uppfylla þarfir flestra og þetta úrval á eftir að aukast enn frekar á nýju ári og árum.

Myndin sýnir þróun hlutfalls rafbíla af kaupum einstaklinga, fyrirtækja og bílaleiga á fólksbílum frá 2012 þegar rafbílavæðingin hófst og til ársins 2025.