Fara í efni

Yfirlýsing frá Brimborg, athugasemd við fréttaflutning RÚV

Eftirfarandi yfirlýsing var senda á fjölmiðla vegna umjöllunar Kveiks.

Í fréttaskýringarþættinum Kveik á RÚV í vikunni var fjallað um launakjör og aðbúnað erlendra starfsmanna á Íslandi, sérstaklega þeirra sem vinna hjá starfsmannaleigum. Brimborg harmar ef atvinnurekendur hér á landi hafi komið illa fram við slíka starfsmenn og nýtt sér bágar aðstæður þeirra. Það á hins vegar ekki við um Brimborg, jafnvel þó að annað hafi verið gefið í skyn í þættinum.

Brimborg var með starfsmenn frá starfsmannaleigum í vinnu í nokkur misseri en er nú að mestu leyti hætt því. Í dag starfa hjá fyrirtækinu aðeins þrír slíkir starfsmenn tímabundið í 2 vikur í afleysingum.

Þegar Brimborg nýtti sér í meira mæli starfsmenn frá starfsmannaleigum var gengið úr skugga um að launakjör þeirra og aðbúnaður væri í samræmi við landslög og kjarasamninga. Í samningum Brimborgar við starfsmannaleigur hafi ávalt verið ákvæði sem tryggja það en ef frávik hafa komið í ljós hefur Brimborg gripið í taumana í samræmi við ábyrgð sína. Í samræmi við kjörorð sitt „öruggur staður til að vera ᓠer Brimborg mjög meðvitað um samfélagslega ábyrgð sína og mikilvægi þess að sýna gott fordæmi á öllum sviðum rekstrarins. Félagið ber mikla umhyggju fyrir öllum 300 starfsmönnum sínum hvort sem þeir vinna beint hjá Brimborg eða í gegnum starfsmannaleigur og fordæmir misnotkun á þessu sviði.

Í fyrrgreindum fréttaskýringaþætti var því haldið fram að starfsmaður á vegum starfsmannaleigu, sem vann hjá Brimborg í sex vikur árið 2016, hafi fengið greidd laun sem væru lægri en þau sem starfsmenn með sömu menntun og reynslu á sama vinnustað fengu greidd. Brimborg hafi þannig mismunað starfsmanninum miðað við íslenska starfsmenn á sama vinnustað. Þessi fullyrðing er röng og var fréttamanni kunnugt um það.

Umræddur starfsmaður kom til Brimborgar á vegum starfsmannaleigu á þeirri forsendu að hann væri bifvélavirki með reynslu. Slíka menntun og reynslu þarf hins vegar að sannreyna frá aðilum sem koma erlendis frá enda þarf að gæta jafnræðis á milli innlendra starfsmanna og erlendra. Þetta ferli heitir „Viðurkenning á erlendu starfsnámi“ og er ferlið aðgengilegt á netinu á íslensku, ensku og pólsku. Um mikilvægi þess að sannreyna heimildir um menntun og reynslu var fréttamanni kunnugt, bæði vegna ítarlegra svara Brimborgar til fréttamanns fyrir þáttinn og vegna þess að einn viðmælandi fréttamannsins í þessum sama þætti gerir einmitt athugasemdir við að starfsréttindi séu ekki nægjanlega vel viðurkennd og gagnrýnir einmitt Vinnumálastofnun fyrir að tryggja ekki að svo sé.

Auðvelt er að sækja um slíka viðurkenningu. Slóðin til að sækja um er eftirfarandi: https://www.erasmusplus.is/menntun/starfsmenntun/vidurkenning-a-erlendu-starfsnami en þar kemur nákvæmlega fram hvaða gögn þarf að leggja fram og að senda eigi þau til Menntamálastofnunar í samræmi við „lög um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til að starfa hér á landi“ https://www.althingi.is/altext/138/s/pdf/0856.pdf. Starfsmenn Brimborgar hafa sumir gengið í gegnum þetta ferli en á meðan á því stendur hefur þeim gefist kostur á því að vinna undir handleiðslu bifvélavirkjameistara hjá Brimborg.

Þessa viðurkenningu skorti hjá umræddum starfsmanni, viðmælanda fréttamannsins, en launakjör hans voru samt 14,1% hærri en taxti Eflingar verkalýðsfélags fyrir ófaglærða með 5 ára starfsreynslu. Aðrir starfsmenn Brimborgar, sem hann vildi bera sig saman við, voru bæði með viðurkennda menntun og lengri starfsreynslu.
Brimborg sendi fréttamanni Kveiks ítarlegar upplýsingar um ofangreint fyrir útsendingu þáttarins en engu að síður er fullyrt í þættinum að viðkomandi starfsmaður hafi haft menntun og reynslu sem bifvélavirki.
Þátturinn var um 44 mínútna langur og var umfjöllun um Brimborg í 60 sekúndur sett í samhengi við misnotkun og brot á réttindum erlendra starfsmanna, hælisleitenda, mansalsfórnarlamba og svarta atvinnustarfsemi. Með lævíslegum hætti með notkun á myndmáli og klippingum var Brimborg spyrt við þessi brot þó að það hafi ekki verið nefnt með orðum að Brimborg hafi brotið af sér. Í raun var myndefnið alls ekki í samræmi við umfjöllun þáttarins.
Brimborg telur að með þessum fréttaflutning hafi fréttamaðurinn brotið siðareglur RÚV, sem m.a. fjalla um mikilvægi þess að gætt sé sanngirni í framsetningu og efnistökum, sbr. einkum þriðju og fimmtu málsgreinum fyrstu greinar en þar segir:

„Starfsfólk sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni eða dagskrárgerð sannreynir að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum. Þetta á sérstaklega við þegar upplýsingar geta verið litaðar af persónulegum hagsmunum eða geta verið til þess fallnar að skaða aðra. Gildir þá einu hvort í hlut eiga einstaklingar, fyrirtæki, samtök, félög eða annað“.

„Starfsfólk stendur vörð um trúverðugleika stofnunarinnar. Staðreyndavillur og mistök, sem varða umfjöllun eða samskipti við almenning, eru undanbragðalaust leiðrétt eins fljótt og mögulegt er“.

Það er fjarri sanni að Brimborg tengist þeim alvarlegu brotum sem fréttaskýringarþátturinn fjallar um enda er slík háttsemi algerlega í ósamræmi við lög í landinu og gildi félagsins. Af þeim sökum er umfjöllun þáttarins ámælisverð, einkum notkun á myndefni.

Hjá Brimborg eru laun, aðbúnaður og vinnuumhverfi framúrskarandi á allan hátt og fyrirtækið ber mikla umhyggju fyrir öllum 300 starfsmönnum sínum, óháð kyni og þjóðerni og hefur alltaf gert í 54 ára sögu félagsins. Enda augljós hagur að hlúa vel að og gera vel við gott starfsfólk. Fyrrverandi starfsmenn starfsmannaleiga hafa lagt mikla áherslu á að vinna áfram hjá fyrirtækinu og Brimborg hefur nýlega fengið staðfest frá þremur af stærstu verkalýðsfélögum starfsmanna að engin mál tengd Brimborg séu á borðum þeirra og samskipti milli stjórnenda Brimborgar og verkalýðsfélaga séu til fyrirmyndar. Um er að ræða verkalýðsfélögin VR, Eflingu og FIT (Félag iðn- og tæknigreina).

Brimborg hefur gert allt sem í sínu valdi hefur staðið til þess að tryggja hag erlendra starfsmanna og hvetur Vinnumálastofnun og aðrar opinberar stofnanir til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu með heimsóknum og skoðun gagna. Við hjá Brimborg munum fagna slíkum heimsóknum.

Virðingarfyllst
F.h. Brimborgar
Egill Jóhannsson, forstjóri


Vefspjall