Fara í efni

Bílverð hækkar að óbreyttu með nýjum WLTP reglum ESB

Bílverð hækkar að óbreyttu með nýjum WLTP reglum ESB
ESB hefur innleitt nýja aðferð til að mæla eyðslu
Nýjar mengunarmælingar ESB, svokallaðar WLTP taka við af eldri mælingum NEDC og gætu haft áhrif til hækkunar á bílverði

WLTP í stað NEDC

ESB hefur innleitt nýja aðferð til mælinga á eyðslu bíla og CO2 losun þeirra. Nýja aðferðin er WLTP sem er skammstöfun fyrir Worldwide Harmonised Light Vehicle Test Procedure og tekur við af NEDC sem er stytting á New European Driving Cycle.

Í stuttu máli þá er markmiðið með nýju mælingunum að líkja enn betur eftir akstri í raunheimum sem þýðir að mæligildi munu hækka þ.e. eyðsla mun mælast hærri og CO2 losun einnig í nýju WLTD mælingunni en var í NEDC mælingunni. Í raun breytist hvorki eyðsla né mengun heldur færist mæligildið nær raunveruleikanum.

Hvers vegna nýr staðall?

Gamli staðallinn var innleiddur upp úr árinu 1980 og margvíslegir þættir hafa breyst, bæði bíltæknin og ekki síður akstursaðstæður sem hafa gert gamla staðalinn úreltan. Því var brugðið á það ráð að hanna nýjan staðal sem byggir á rannsóknum á raunverulegum akstri víðsvegar um heiminn.

Ný staðallinn sem kallast eins og áður segir WLTP líkir því mun betur eftir raunverulegum akstri. Fjögur hraðastig eru mæld og einnig er alltaf mældur léttasti bíll hverrar tegundar og sá þyngsti. Þetta gerir það að verkum að hægt er að sjá áhrif þyngdar á eyðslu og CO2 losun. Þau mæligildi eru síðan notuð til að reikna út eyðslu fyrir allar aðrar gerðir sömu tegundar og alla einstaka aukahluti sem fáanlegir eru fyrir hverja tegund.

Því getur mengunargildi verið annað ef t.d. dráttarkrókur er pantaður með bíl eða stærri álfelgur svo dæmi sé tekið. Það getur síðan haft áhrif á bílverðið. Bíll getur því hæglega hækkað um hundruðir þúsunda bara við það að vera á 20 tommu álfelgum í stað 19 tommu. Ástæðan er sú að hærra vörugjald leggst ekki bara á verðið á álfelgunum heldur á allt innkaupsverð bílsins.

WLTP

Hvers vegna hækkar verð nýrra bíla á Íslandi við þessa breytingu?

Markmið ESB var ekki að neytendur þyrftu að bera aukinn kostnað af breytingunni. En gjaldareglur eru mismunandi í hverju landi og á Íslandi byggja vörugjöld bíla á CO2 gildum í tíu flokkum. Fyrsti flokkurinn er t.d. 0-80 grömm per km. af CO2 losun og þá borgast engin vörugjöld. Næsti flokkur er frá 81-100 grömm af CO2 per km. og ber 10% vörugjöld. Og svo koll af kolli þar til komið er í hæsta flokkinn sem ber 65% vörugjald fyrir bíla með CO2 losun yfir 250 grömm per km.

Þetta gæti þýtt að ef nýtt WLTP mæligildi fyrir tiltekinn bíl hækkar það mikið að hann færist milli gjaldaflokka, eins eða fleiri, þá hækka gjöld bílsins í tolli og bílverð hækkar að sama skapi. Ef stjórnvöld taka ekki tillit til þessara breytinga þá geta þær að óbreyttu haft mikil áhrif á verð nýrra bíla til hækkunar. Hækkunin verður eflaust mismikil eftir bíltegundum og gæti verið frá 5% og til allt að 40%.

Þessar nýju álögur munu leggjast sérstaklega þungt á svokallaða tengiltvinnbíla (Plug-in hybrid) sem munu hækka enn meira í verði.

Einnig munu bílaleigur finna fyrir þessum hækkunum auk þess sem niðurfelling vörugjalda á bílaleigubílum fellur alfarið niður um áramót og því verða nýir bílaleigubílar keyptir inn eftir næstu áramót mun dýrari fyrir bílaleigur.

Nýjar mælingar taka gildi 1. september 2018 og þá gæti bílverð hækkað umtalsvert

Þann 1. september 2018 eiga skráningargögn allra nýrra bíla að innihalda nýju gildin. Bílar sem eru þegar komnir til landsins og búið er að forskrá hjá Samgöngustofu mega halda gömlu gildunum og tollafgreiðast þá á lægra gjaldi. Bílar fluttir inn eftir 1. september á þessu ári tollafgreiðast miðað við hærri CO2 gildi og þ.a.l. á hærri gjöldum. Þetta gæti þýtt aukna sölu nýrra bíla sem eru til á lager og voru forskráðir á eldra mæligildi eða á meðan birgðir endast.

Í löndum eins og Íslandi þar sem gjaldareglurnar eru eins og að ofan er lýst þá gæti þetta haft þau áhrif að mengun frá bílum ykist fyrstu árin, þvert á markmiðin með þessum breytingum. Ástæðan er sú að innflutningur notaðra bíla sem þegar hafa verið skráðir í Evrópu skv. gömlu gildunum gæti aukist umtalsvert því þá lenda þeir í lægri gjaldaflokkum en nýir, sambærilegir bílar. Því er líklegt að eldri bílar sem menga meira muni streyma til Íslands frá Evrópu fyrstu árin eftir innleiðinguna.

Úrval bíla til sölu dregst saman vegna WLTP

Nýju mælingarnar eru umtalsvert flóknari og tímafrekari en þær eldri sem mun þýða að bílaframleiðendur munu ekki mæla alla bíla skv. þeim. Þeir munu því detta úr sölu og eru áhrifin af þessu þegar farin að hafa áhrif á fjölda bíltegunda í sölu á Íslandi.

Ítarlegar útskýringar á WLTP er að finna á ensku á þessari vefsíðu http://wltpfacts.eu/


Vefspjall