Fara í efni

Reynsluakstur Ford Kuga

Reynsluakstur Ford Kuga
Ford Kuga
Blaðamaður Viðskiptablaðsins, Róbert, reynsluók Ford Kuga á dögunum og hann var á því að bílinn væri vel útbúinn og afar tæknivæddur jepplingur með prýðilega akstursupplifun.

Blaðamaður Viðskiptablaðsins, Róbert, reynsluók Ford Kuga á dögunum og hann var á því að bílinn væri vel útbúinn og afar tæknivæddur jepplingur með prýðilega akstursupplifun. 

Bílaumfjöllun blaðamannsins er hér í heild sinni:

Ford Kuga er laglegur í útliti með skarpar og sportlegar línur.

Framendinn er sérstaklega flottur þar sem grillið er áberandi og kraftalegt. Innanrýmið er ágætlega hannað. Línurnar haldast flottar allar leið aftur úr. Innréttingin er nokkuð lagleg þar sem gírstöngin er óvenju framarlega en í staðinn gott geymslurými á milli framsætanna.

Miðjustokkurinn er frekar mjór og hár en öllum aðgerðartökkum vel raðað vel upp. Átta tommu skjárinn er ofarlega og fyrir ofan hann er geislaspilarinn. Mér finnst LED-lýsingin í farþegarými sérstaklega skemmtileg og gerir mikið fyrir innanrýmið, sérstaklega að kvöldlagi. Efnisvalið í innréttingunni mætti hins vegar vera vandaðra en þar er talsvert mikið plast.

Fínt afl og mikil dráttargeta

Reynsluakstursbíllinn var í svokallaðri Titanum S útfærslu með tveggja lítra dísilvél, sjálfskiptur og fjórhjóladrifinn. Ford Kuga er fínn í akstri, lipur og stýringin öll góð. Bíllinn er frekar þéttur og það heyrist ekki mikið veghljóð en helst að dísilvélin mali aðeins þegar tekið er á bílnum. Vélin í bílnum skilar 150 hestöflum og hámarkstog er 370 Nm. Það er gott afl í bílnum og vélin vinnur vel allan tímann. Það er enginn að fara að slá nein hraðamet í þessum bíl enda ekki til þess gerður. Hann er 10,9 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið sem er sæmilegt. Hægt er að fá Ford Kuga í þessari Titanum S útfærslu með 180 hestafla dísilvél sem er þá aðeins aflmeiri. Sú skilar 400 Nm í togi og þá er hann 10 sekúndur í hundraðið.

Skynvætt, tölvustýrt fjórhjóladrifið hjálpar til við að gera aksturinn enn þægilegri en það lagar sig að undirlagi og ástandi vega og eykur þar með öryggið í leiðinni. Dráttargetan er mjög góð en bíllinn dregur alls 2.100 kg. Bíllinn er með mikilli veghæð eða alls 20 sentimetra og er það ekki slæmt fyrir íslenskar aðstæður og þá sérstaklega á malarvegum eða þegar snjór og krap taka yfir gatnakerfi borga og bæja yfir vetrartímann. Eyðslan í bílnum er frá 5,4 lítrum í blönduðum akstri sem er með því sparneytnara í þessum stærðarflokki bíla. CO2 losunin er frá 134 g/km sem eru þokkalegar tölur.

Vel útbúinn og tæknivæddur

Maður situr frekar hátt í bílnum og það er prýðilegt útsýni úr honum. Sætin eru þægileg og það er gott pláss fyrir ökumann og farþega frammí og ágætis pláss afturí fyrir þrjá fullorðna. Akstursupplifunin er því prýðileg í alla staði. Allt aðgengi að bílnum er prýðilegt og hann er með rafræna lokun á afturhleranum sem er kostur.Þrátt fyrir útlitsbreytingar þá felast mestu breytingarnar á milli kynslóða fyrst og fremst í meiri tækni og búnaði sem eru í nýja bílnum. Og það er ansi mikið í staðalbúnaði bílsins. Má þar nefna Ford SYNC 3 raddstýrt samskiptakerfi sem Microsoft hannaði með Bluetooth og neyðarhringingu í 112. Með raddstýringu getur maður hringt og stjórnað tónlistinni. SYNC3 innfelur meðal annars Apple CarPlay og Android Auto svo eitthvað sé nefnt. Þetta er eiginlega eins og snjallbíll ef tæknin er tekin með í reikninginn.

Öryggið á oddinn

Ford Kuga er einnig búinn íslensku leiðsögukerfi, Bluetooth, raddstýringu, bakkmyndavél, tvískipta tölvustýrða miðstöð með loftkælingu. Bíllinn er einnig búinn starthnappi, hraðastilli, aksturstölvu og brekkuaðstoð. Í Kuga Titanium S er aukalega í öryggispakkanum m.a. árekstrarvörn, veglínuskynjari, umferðarskiltalesari, ökumannsvaki og sjálfvirk lækkun háa geisla ef bíll kemur á móti.

Öryggi Ford Kuga er með því besta enda fékk hann fimm stjörnur af fimm mögulegum í árekstra- og öryggisprófunum Euro NCAP.

Verð á Ford Kuga er frá 4.490.000 kr. en það miðast við 120 hestafla bíl í Trend Edition útfærslu sem er beinskiptur. Í Titanum útfærslu kostar bíllinn frá 5.690.000 kr og er þá talsvert betur búinn og í Titanum S útfærslu er hann frá 5.990.000 kr.


Vefspjall