Fara í efni

Leiðtogar í orkuskiptum á Íslandi kaupa 23 rafknúna vörubíla

Leiðtogar í orkuskiptum á Íslandi kaupa 23 rafknúna vörubíla
Leiðtogar í orkuskiptum á Íslandi kaupa 23 rafknúna vörubíla

Ellefu öflug fyrirtæki ásamt Velti, Volvo atvinnutækjasviði Brimborgar, og Volvo Truck, einn stærsti vörubílaframleiðandi heims, munu taka eitt stærsta einstaka skref í að draga úr koltvísýringslosun Íslands og hafa staðfest kaup á 23 rafknúnum vöruflutningabílum og um leið svarað ákalli og loforði stjórnvalda um orkuskiptaátak í atvinnulífinu.

Markmið verkefnisins: Áætlað er að rafknúnu bílarnir aki um 1,2 milljónir km á ári í stað sambærilegra dísilbíla á sömu akstursleiðum og muni árlega nota um 1,3 milljónir kWst af raforku. Markmiðið er að spara um hálfa milljón lítra af dísilolíu á hverju ári með tilheyrandi árlegum gjaldeyrissparnaði og samdrætti í koltvísýringslosun um 1.300 tonn á ársgrundvelli auk útrýmingar á NOx- og sótmengun.

„Til að ná hertum markmiðum munum við endurskoða fyrirliggjandi aðgerðaáætlun og setja fram sameiginleg markmið stjórnvalda og allra geira samfélagsins um hverju hver og ein atvinnugrein getur skilað í samdrætti í útblæstri.“ sagði forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í september 2022.

Með frumkvæði sínu hafa fyrirtækin, sem starfa í fjölmörgum geirum atvinnulífsins, tekið af skarið og skipað sér í leiðtogastöðu í orkuskiptum á Íslandi með það að markmiði að sýna fram á að tæknilega séu orkuskiptin möguleg strax í dag og ryðja þannig brautina fyrir aðra. Í alhliða vöruflutningum eru það fyrirtækin Garðaklettur - dótturfélag Kynnisferða, Eimskip og GS Frakt, Pósturinn í póstdreifingu, Ölgerðin í drykkjar- og matvæladreifingu, Íslenska gámafélagið í sorphirðu, Húsasmiðjan í dreifingu byggingarefna til mannvirkjagerðar, Steypustöðin í flutningi á jarðefnum og steypu til mannvirkjagerðar, Torf túnþökuvinnsla í dreifingu á túnþökum, Jón og Margeir í Grindavík í vöru- og fiskflutningum og Ragnar og Ásgeir í Grundarfirði í vöru- og fiskflutningum.

Loftslagsskuldbindingar Íslands kalla á tafarlausar aðgerðir

Ísland hefur skrifað undir alþjóðlegar skuldbindingar um að draga úr kolefnislosun á hverju ári til ársins 2030, sett enn metnaðarfyllri landsmarkið fyrir sama ár og lögfest að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Ísland upplifði bakslag árið 2021 skv. bráðabirgðatölum frá Umhverfisstofnun þegar losun jókst um 1,9%.

„Það segir okkur að það er stórt verkefni framundan og okkur liggur mikið á,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í viðtali við RÚV 16. september síðastliðinn.

Náist umrædd markmið ekki þýðir það umtalsverð fjárútlát á næstu árum fyrir ríkissjóð við kaup á losunarheimildum á alþjóðlegum mörkuðum. Aðeins örfá ár eru til stefnu sem kallar á tafarlausar og metnaðarfullar aðgerðir í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs.

Fjöldaframleiðsla Volvo á rafknúnum vörubílum opnar fyrir orkuskipti þungaflutninga

Með ákvörðun Volvo Trucks um að hefja fjöldaframleiðslu rafknúinna þungaflutningabíla með heildarþyngd allt að 44 tonn er tæknilegum hindrunum fyrir orkuskiptum í þungaflutningum rutt úr vegi. Samkvæmt gögnum frá Evrópusambandinu fara 45% af öllum þungaflutningum fram á akstursleiðum sem eru styttri en 300 km. Volvo Truck samdi nýlega við Amazon í Þýskalandi um kaup á 20 rafknúnum þungaflutningabílum af FH gerð til afhendingar fyrir árslok 2022. Amazon er með eitt metnaðarfyllsta rafvæðingarverkefni í flutningum í atvinnuskyni með það að markmiði að kolefnisfría flutninga sína og tryggja viðskiptavinum sínum afhendingar á pökkum án koltvísýringslosunar.

Bílarnir eru öflugir með 1-3 rafmótora eftir þyngd og stærð sem skila allt að 666 hestöflum og með rafhlöður sem rúma frá 265 kWst til 540 kWst og drægni allt að 380 km.

Kaup á 23 rafknúnum þungaflutningabílum

Sem leiðtogar í orkuskiptum hafa fyrirtækin sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum sem hluta af sjálfbærnivegferð sinni og í samræmi við það tekið þetta stærsta einstaka orkuskiptaskref á Íslandi, kaup á 14 rafknúnum vörubílum og öðrum 9 til viðbótar þegar fleiri gerðir bætast í framleiðslulínu Volvo um mitt næsta ár. Bílarnir eru af fimm gerðum, FL, FE, FM, FMX og FH. Þeir verða ýmist útbúnir sem dráttarbílar, bílar með vörukassa, með krókheysi, sem steypubílar og bílar með palli með og án bílkrana. Þeir eru að heildarþyngd ýmist 16 tonn, 26 tonn eða 44 tonn og verða til afhendingar á næstu 4-12 mánuðum.

Væntanlegur stuðningur stjórnvalda og einstakur stuðningur Volvo Truck

Rafknúnir vörubílar eru 2,7 til 3,6 sinnum dýrari en sambærilegir dísilbílar auk þess sem umtalsverður kostnaður er við uppsetningu hleðsluinnviða hjá rekstraraðilum þeirra sem gerir það að verkum að kaupin eru fjárhagslega og tæknilega stórt skref hjá fyrirtækjunum. Í ljósi hagstæðra skilyrða á Íslandi fyrir rafknúin ökutæki og mikils vilja íslenskra stjórnvalda til að styðja við orkuskipti í þungaflutningum bauð Volvo Truck að Ísland yrði í hópi fyrstu landa að hefja sölu og samhliða bauð framleiðandinn Brimborg sérstakan stuðning til að ýta orkuskiptunum úr vör.

Væntanlegur stuðningur stjórnvalda við þetta verkefni og við innleiðingu orkuskipta í þungaflutningum mun síðan tryggja að frumkvæði þessara fyrirtækja verði hreyfiafl orkuskipta í þungaflutningum til framtíðar. Stjórnvöld og sveitarfélög geta, auk ívilnana, liðkað fyrir rafknúnum vörubílum með því að endurskoða t.d. lög og reglur um stærð og þyngd ökutækja og reglur um akstur rafknúinna ökutækja innanbæjar með það í huga að vélbúnaður bílanna gefur hvorki frá sér mengun né hljóð.

Hleðsluinnviðir vörubíla styðja við hleðsluinnviði fyrir aðra bíla

Rafhleðslutækni vörubílanna byggir á sömu stöðlum og hleðslubúnaður fólksbíla, bæði í hæg- og hraðhleðslu og getur því einnig nýst til hleðslu fólksbíla, jeppa og sendibíla sem styrkir enn frekar innviðauppbyggingu í landinu.

Hleðslustöðvar til hæghleðslu eru 22 kW (AC) fyrir minni bílana og 43 kW (AC) fyrir þá stærri. Það tekur um 9,5 klst að fullhlaða stærstu bílana og þeir taka við 250 kW (DC) í hraðhleðslu en þannig tekur það 2,5 klst að fullhlaða. Akstursleiðir hafa verið skoðaðar í hermilíkani frá Volvo Trucks. Þær hafa verið valdar með það í huga að oftast verði bílarnir hlaðnir í lok vinnudags yfir kvöld og nótt og þeir fullhlaðnir að morgni. Á meira krefjandi leiðum verða hraðhleðslustöðvar notaðar til að skjóta raforku inn á bílana þegar færi gefst. Verkefnið verður mikill lærdómur um hvernig best er að haga uppsetningu hleðsluinnviða fyrir þungaflutningabíla og hvernig hleðsla þeirra geti átt sér stað með núverandi dreifikerfi raforku.

Skjót viðbrögð orkuskiptaleiðtoga í atvinnulífinu og jákvæð viðbrögð í samfélaginu

“Starfsmenn Veltis ásamt starfsmönnum Brimborgar hafa unnið að þessu verkefni í rúmt ár. Þegar við fengum loks lausan tauminn frá Volvo Truck um að hefja sölu rafmagnsvörubíla eitt fyrst landa í kjölfar upphafs fjöldaframleiðslu og rausnarlegs stuðnings frá Volvo Truck þá biðum við ekki boðanna. Við höfðum samband við fjölda fyrirtækja sem voru líkleg til að ríða á vaðið og lögðum fyrir þau þessar nýju orkuskiptalausnir í þungaflutningum frá Volvo Truck. Skjót viðbrögðin komu sannarlega á óvart en um leið var einstaklega ánægjulegt að upplifa það frumkvæði og þá framsýni sem þessir leiðtogar í atvinnulífinu sýndu með því að stökkva á orkuskiptavagninn og leggja þannig sitt af mörkum til að ná markmiðum Íslands í að draga úr losun koltvísýrings. Í vinnu við þetta verkefni hefur Brimborg upplýst og tekið samtal við Samorku - Samtök orku- og veitufyrirtækja, Orkustofnun, Íslenska nýorku, SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandið, Samtök atvinnulífsins, Landsvirkjun, Landsnet, Umhverfisstofnun og Umhverfisráðuneytið um þessi áform og höfum við fengið einstaklega jákvæð viðbrögð.” segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.

Betri orkunýtni þýðir um 1,3 milljónir kWst af íslenskri raforku í stað um 500 þúsund lítra af olíu

Brimborg hefur áætlað í samvinnu við kaupendur með aðstoð hermilíkans Volvo Truck að árlegur akstur bílanna geti verið meira en 1,2 milljónir km á ári. Miðað við áætlaða raforkunotkun hvers bíls á völdum akstursleiðum þá gætu skiptin yfir í rafmagn þýtt árlega raforkunotkun um 1,3 milljónir kWst af íslenskri, endurnýjanlegri, raforku. Miðað við sömu akstursleiðir og áætlaða olíueyðslu þá kæmi þessi raforkunotkun í stað hálfrar milljón lítra af dísilolíu.

Orkunýtni rafknúinna ökutækja er mun meiri en þeirra sem knúin eru dísilolíu. Í tilraunaakstri á tiltekinni leið þar sem tveir 40 tonna Volvo vörubílar, annars vegar rafknúinn og hins vegar dísilknúinn, óku 345 km á 80 km meðalhraða var orkunýtni rafmagnsbílsins 50% betri. Ef áætlaðar tölur Brimborgar ganga eftir í þessu verkefni þá er nýtnin enn betri eða um 70%. Meiri nýtni gæti skýrst af vali á leiðum þar sem meðalhraði er lægri og fleiri stop sem hjálpar rafbílnum.

Þegar rauntölur úr þessu verkefni byrja að berast þá gætu þær tölur skipt sköpum í mati á því hversu mikil orkuþörfin verður vegna algjörra orkuskipta og þær tölur hjálpað stjórnvöldum að taka ákvarðanir um frekari orkuöflun á Íslandi.

Ríflega 1.300 tonn koltvísýringsígilda sparast á ársgrundvelli

Þessir rafknúnu þungaflutningabílar munu draga umtalsvert úr losun koltvísýrings, útrýma NOx- og sótmengun og minnka hávaða í umhverfinu og þeir munu ekki síst verða hvatning öðrum fyrirtækjum til að stíga stór orkuskiptaskref. Að teknu tilliti til losunar koltvísýrings við framleiðslu og dreifingu á raforku, áætlaðs aksturs og sparnaðar í olíunotkun er áætlað að þessir rafknúnu vörubílar muni draga árlega úr losun Íslands á 1.333 tonnum af koltvísýringsígildum. Bílarnir munu ekki eingöngu draga úr kolefnisspori fyrirtækjanna sem kaupa og reka bílana heldur munu fyrirtæki sem kaupa þjónustu þeirra njóta þessa í lægra kolefnisspori og viðskiptavinir þeirra njóta þess síðan í lægra kolefnisspori þeirrar vöru og þjónustu sem þau veita.

Brimborg stærst á markaði rafknúinna ökutækja og véla

Í samræmi við markmið Umhverfisstefnu Brimborgar, Visthæf skref, sem innleidd var árið 2007 þá hefur Brimborg lagt mikla áherslu á leiðtogahlutverk sitt í orkuskiptum á bílamarkaði með það að markmiði að hraða orkuskiptum.

Brimborg forgangsraðar gagnvart innflutningi á rafknúnum bílum og tækjum, hefur fyrst bíla- og tækjaumboða gefið út heildstætt sjálfbærniuppgjör, hefur þegar sett upp yfir 30 hleðslustöðvar á starfsstöðvum sínum, undirbýr uppsetningu 12 hraðhleðslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, suðurnesjum og Akureyri, markaðssetur orkuskiptalausnir af miklum krafti, veitir starfsmönnum í sölu og þjónustu umfangsmikla þjálfun á þessari nýju tækni og veitir heimilum og fyrirtækjum ráðgjöf við orkuskipti og uppsetningu hleðsluinnviða.

Þetta hefur leitt til forystu Brimborgar í sölu á rafknúnum sendibílum með 40% hlutdeild, rafknúnum fólksbílum og jeppum með 23% hlutdeild, rafknúnum vinnuvélum með 100% hlutdeild og með þessu stóra verkefni mun Brimborg einnig leiða orkuskipti í þungaflutningum.