Fara í efni

Endurnýjanlegir orkugjafar 86,4% af orkunotkun Brimborgar, stefnt að 90% í lok árs

Endurnýjanlegir orkugjafar 86,4% af orkunotkun Brimborgar, stefnt að 90% í lok árs
Brimborg notar 86,4% endurnýjanlega orkugjafa í rekstri félagsins, stefnt að 90% í lok árs

Orkuskiptin eru gríðarlegt hagsmunamál fyrir Íslendinga og þar þurfa fyrirtæki að leggja sitt af mörkum enda ávinningur mikill af því að vinna markvist að orkuskiptum og auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Brimborg tekur stór skref í orkuskiptum sem hefur margvísleg jákvæð áhrif:

  • Umhverfisáhrif eru jákvæð því losun Brimborgar af koltvísýringsígildum (CO2í) minnkar sem hefur jákvæð loftslagsáhrif
  • Framlag til orkuöryggis íslensku þjóðarinnar með minni kaupum á jarðefnaeldsneyti sem sparar erlendan gjaldeyri og skref í átt að meira orkuöryggi Íslands
  • Fjármunir sparast í rekstri félagsins sem stuðlar að betri arðsemi og lægra bílverði
  • Erlendar verðsveiflur á olíuverði hætta að hafa áhrif á verðbólgu á Íslandi sem er hagsmunamál fyrir heimilin auk þess sem innlendir orkugjafar á bíl heimilisins eru ódýrari og verðlag stöðugra

Brimborg fyrst bíla- og tækjaumboða og fyrsta ökutækjaleigan með heildstætt sjálfbærniuppgjör
Brimborg er fyrst bíla- og atvinnutækjaumboða á Íslandi og fyrsta ökutækjaleigan á Íslandi sem gefur út heildstætt sjálfbærniuppgjör og er þetta stóra vistskref í samræmi við umhverfisstefnuna Visthæf skref sem Brimborg innleiddi árið 2007 og í samræmi við kjörorð félagsins, Öruggur staður til að vera á, sem kynnt var til sögunnar árið 2003.

Sjálfbærniuppgjörið fer eftir alþjóðlegum stöðlum um UFS mælikvarða (e. ESG standards) og hefur að geyma allar helstu upplýsingar um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti Brimborgar í samræmi við UFS-leiðbeiningar sem Nasdaq á Íslandi og Norðurlöndunum gáfu út árið 2019.

Brimborg birtir í fyrsta skipti heildstætt sjálfbærniuppgjör fyrir rekstrarárið 2021 fyrir öll rekstrarsvið félagsins á öllum starfsstöðvum um allt land með ítarlegum upplýsingum um áhrif starfsemi sinnar á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS). Klappir Grænar Lausnir hafa aðstoðað við gerð sjálfbærniuppgjörsins, sem byggir á þeim upplýsingum sem Klappir hugbúnaðurinn hefur safnað saman yfir árið, ásamt upplýsingum sem safnað er í upplýsingatæknikerfum Brimborgar og upplýsingum frá þriðja aðila.

Margvíslegum gögnum er safnað um áhrif reksturs Brimborgar á umhverfið með það að markmiði að vinna markvist að því að draga úr þessum áhrifum. Það á meðal annars við um heildarorkunotkun í rekstri Brimborgar, samsetningu orkunnar og hversu mikið orkunotkunin losar af koltvísýringsígildum (CO2í).

Heildarorkunotkun 10,5 milljón kílóvattstundir (kWst)
Í sjálfbærniuppgjörinu kemur fram að Brimborg notaði í heild ígildi 10.530.693 kWst af orku í rekstrinum árið 2021 og 86,4% af orkunni kom frá endurnýjanlegum orkugjöfum og 13,6% kom frá jarðefnaeldsneyti.

Samsetning orkunotkunar Brimborgar árið 2021 er eftirfarandi reiknuð í kWst:

Orkunotkun Brimborgar í samhengi við umsvif í rekstri
Þegar orkunotkun er sett í samhengi við umsvif þá var heildarsala nýrra og notaðra bíla og nýrra og notaðra atvinnutækja 3.699 einingar árið 2021 sem þýðir að notaðar voru 2.847 kWst per seldan bíl eða atvinnutæki. Ef orkunotkunin er sett í samhengi við heildarveltu ársins sem var 22,91 milljarðar þá voru notaðar 459,7 kWst á hverja milljón krónur í veltu.

Næstum 80% koltvísýringslosunar orkunotkunar er vegna jarðefnaeldsneytis
Koltvísýringslosun Brimborgar vegna heildarorkunotkunar nam 552,8 tonnum koltvísýringsígilda (tCO2í) en þar af nam losunin vegna brennslu jarðefnaeldsneytis 80% eða 442,5 tCO2í. Þá er bæði tekið tillit til losunar vegna beinnar notkunar Brimborgar á eldsneyti fyrir ökutæki (353,3 tCO2í) en einnig er tekið tillit til losunar sem kom til á fyrri stigum vegna eldsneytis, það er hráefnavinnsla, framleiðsla og flutningur á eldsneyti að dælu (89,2 tCO2í).

Það er því til mikils að vinna að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis og auka hlutfall endurnýjanlegrar orku af heildarorkunotkun og draga þannig úr losun á koltvísýringi.

Áfram stefnt að minnkun orkunotkunar og að hlutfall endurnýjanlegrar orku verði 90%
Í samræmi við umhverfisstefnu Brimborgar þá stefnir Brimborg bæði að því að draga úr heildarorkunotkun á árinu 2022 og að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku enn frekar. Í þessari lotu verður lögð megináhersla á árinu að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og er stefnt að því að endurnýjanleg orka nái því að verða 90% af orkunotkun Brimborgar árið 2022.

Einnig verður ráðist í aðrar aðgerðir til orkusparnaðar til að draga úr notkun raforku og notkun á heitu vatni og aðgerðir til staðbundinnar orkuframleiðslu og eru verkefni nú þegar í vinnslu sem miða í þessa átt og verður kynnt fljótlega. Orkusparnaður og staðbundin orkuframleiðsla eru mikilvæg skref til að draga úr þörf á nýjum virkjunum og skref í átt að þjóðaröryggi í orkumálum.

Brimborg stefnir að 20% samdrætti í koltvísýringsígildislosun (CO2í) frá orkunotkun
Þar sem losun koltvísýringsígilda (CO2í) er mest frá jarðefnaeldsneyti þá mun samdráttur í notkun jarðefnaeldsneytis draga mjög úr losun CO2í frá orkunotkun Brimborgar í heild. Brimborg stefnir að því að notkun jarðefnaeldsneytis minnki um 25% á árinu 2022 sem myndi þýða um 20% minni CO2í losun vegna orkunotkunar Brimborgar á árinu.

Sjálfbærniuppgjör Brimborgar 2021