Fara í efni

Sólarorkuver gangsett á þaki Polestar Reykjavík á Sumarsólstöðum við sólarupprás og frí áfylling sólarorku og reynsluakstur á Sólstöðuhátíð rafbílaeigenda 23. júní

Sólarorkuver gangsett á þaki Polestar Reykjavík á Sumarsólstöðum við sólarupprás og frí áfylling sólarorku og reynsluakstur á Sólstöðuhátíð rafbílaeigenda 23. júní
Sólarorkuver gangsett á þaki Polestar Reykjavík
Brimborg mun formlega hefja sjálfbæra raforkuframleiðslu í sólarorkuveri á þaki Polestar rafbílasalarins á Sumarsólstöðum við sólarupprás kl. 2:54 þann 21. júní 2022. Frí áfylling með sólarorku og reynsluakstur á Sólstöðuhátíð rafbílaeigenda 23. júní frá sólarupprás til sólsetur
 

REYKJAVÍK, ÍSLANDI – 15. júní 2022 Brimborg, umboðsaðili Polestar á Íslandi, gangsetur sólarorkuver á þaki Polestar Reykjavík sem er sérhæfður rafbílasalur fyrir Polestar rafbíla, á Bíldshöfða 6 í Reykjavík á Sumarsólstöðum* við sólarupprás þriðjudaginn 21. júní. Polestar, sænskur framleiðandi hágæða rafbíla með afburða aksturseiginleika, var kynntur á Íslandi hjá Brimborg í nóvember 2021 og Polestar Reykjavík rafbílasalurinn var opnaður formlega 11. júní 2022.

Í tilefni af opnun Polestar Reykjavík og gangsetningar sólarorkuversins mun Brimborg bjóða upp á fría áfyllingu með sólarorku í hraðhleðslustöð** fyrir alla rafbílaeigendur og reynsluakstur á hinum verðlaunaða Polestar 2 rafbíl frá sólarupprás til sólseturs fimmtudaginn 23. júní eða frá 02:55 til 00:04.

„Polestar rafbílarnir hafa fengið einstaklega góðar viðtökur og einkennandi hönnun Polestar 2 sést nú æ oftar á götum Íslands. Með nýjum sjálfbærum rafbílasal Polestar stefnum við að því að hraða enn frekar orkuskiptum í samgöngum á Íslandi og viljum við nýta tækifærið á þessum tvöföldu tímamótum og bjóða alla rafbílaeigendur velkomna í Sólstöðu reynslukakstur og fría áfyllingu með sólarorku. Orkuskiptin skipta miklu máli fyrir Ísland sem framleiðir alla sína raforku á ódýran, endurnýjanlegan og sjálfbæran hátt,“ segir Ríkarður Úlfarsson framkvæmdastjóri Polestar á Íslandi.

„Sólarorkuframleiðsla á Íslandi er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann en þetta frumkvöðlaverkefni er mikilvægt skref í að skoða nýja möguleika á staðbundinni orkuframleiðslu sem dregur úr álagi á orkukerfi landsins. Langir íslenskir dagar og sólarorkuframleiðsla á þaki fyrirtækis þar sem raforkunotkun á sér stað á sama tíma og framleiðslan er í hámarki þýðir að orkan er notuð um leið og hún er framleidd og ekki þörf á geymslu á rafhlöðum. Sólarorkuver á fyrirtækjaþökum ganga ekki á landið eða viðkvæma náttúru Íslands, auk þess sem sjónmengun er nánast engin“, segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.

Sólarorkuver Brimborgar á þaki Polestar Reykjavík rafbílasalarins er það stærsta á Íslandi hvort sem mælt er miðað við uppsett afl í kW, fjölda sólarsella, fjölda fermetra sólarsella eða reiknaða raforkuframleiðslu í kWst. Uppsett afl þess er ríflega 26 kW en um er að ræða 70 sólarsellur þar sem hver þeirra er 375 W og þekja þær 130 fermetra á þaki Polestar Reykjavík. Sólarsellurnar eru með 3,2 mm hertu hlífðargleri með glampavörn. Reiknað er með að raforkuframleiðslan geti numið allt að 24.000 kWst á ári og nú með formlegri gangsetningu verður hægt að sjá raunframleiðslu á raforku.

Allar þrjár gerðir Polestar 2 eru í boði hjá Brimborg, þeir eru allir hlaðbakar og 100% rafmagn. Tvær þeirra eru til sýnis í rafbílasalnum en sú þriðja er væntanleg á síðari helmingi ársins. Long range Dual motor útfærslan með 78 kWst drifrafhlöðu og tveimur 150 kW rafmótorum sem skilar 408 hestöflum. Þá gerð er hægt að uppfæra með Performance pakka og auka þannig aflið í 476 hestöfl og 680 Nm tog. Long range Single motor útfærslan er einnig með 78 kWst drifrafhlöðu en einum rafmótor á framás fyrir jafnvel enn meiri drægni og skilar 170 kW og 231 hestöflum. Á seinni hluta ársins mun Brimborg bjóða þriðju gerðina, Standard range Single motor útfærslu, með 69 kWst drifrafhlöðu og einum 170 kW rafmótor á framás sem skilar 231 hestöflum. Drægni fyrir þessar þrjár gerðir Polestar 2, miðað við evrópska WLTP staðalinn, er frá 474 km til 542 km.

Allar útfærslur Polestar 2, litir og innréttingar eru til sýnis og reynsluaksturs og býðst áhugasömum að bóka heimareynsluakstur í sólarhring. Á polestar.com vefnum er einnig hægt að fá allar upplýsingar um verð, tækni og búnað og bóka tíma í reynsluakstur.

Polestar 3, fyrsti rafknúni jeppi Polestar byggður með afburða aksturseiginleika í huga, er væntanlegur og verður hann frumsýndur í október 2022 en áhugasamir geta skráð sig hjá Polestar sérfræðingum Brimborgar fyrir nánari upplýsingar þegar nær dregur frumsýningu.

* Sólin er uppspretta nánast allrar orku á jörðinni. Sumarsólstöður eru þegar sól er hæst á lofti á norðurhveli jarðar og þær ber ýmist upp á 20. eða 21. júní. Tímasetningin hnikast örlítið milli ára, eftir því hvernig stendur á hlaupári en árið 2022 eru þær 21. júní kl. 9:13. Á sólstöðum stefnir ofanvarp snúningsáss jarðar á braut jarðar beint á miðju sólar. Þessi atburður er því á tilteknu augnabliki innan dagsins.

** Hleðslan fer fram í 50 kW hraðhleðslustöð sem býður upp á CCS hraðhleðslutengi.


Vefspjall