Fara í efni

Reynsluakstur Volvo V90 Cross Country

Reynsluakstur Volvo V90 Cross Country
Volvo V90CC
Róbert Runólfsson, blaðamaður bílablaðs Viðskiptablaðsins reynsluók Volvo V90 Cross Country á dögunum. Að hans mati hentar bíllinn sérstaklega vel við íslenskar aðstæður, aksturseiginleikar hans mjög góðir í alla staði hvort sem ekið er á malbiki eða möl og bíllinn mjög þéttur og líður áfram áreynslulaust

Róbert Runólfsson, blaðamaður bílablaðs Viðskiptablaðins, reynsluók Volvo V90 Cross Country á dögunum.

Hér á eftir fer umfjöllun hans og upplifun af bílnum:

90 Cross Country leysir af hólmi Volvo V70 Cross Country og er talsvert stærri og betur búinn en 70 bíllinn. Volvo V90 Cross Country er upphækkuð útgáfa hins nýútkomna flaggskips Volvo S90 Wagon og á að vera færari um að glíma við erfiðar aðstæður. Volvo hefur tekist ótrúlega vel til í hönnun á nýjustu bílum sínum og sérstaklega 90 línunni. V90 Cross Country kippir í kynið því á honum má sjá framljósin sem bræður hans hafa en þessi LED ljós hafa verið kölluð Þórshamarinn. Bíllinn er einnig með sambærilegt grill og fyrst var kynnt á XC90 jeppanum. Línurnar eru flottar heilt yfir. Á afturendanum má svo sjá L-laga ljós sem gefa bílnum fallegt yfirbragð.

Búinn undir torfærur

Bíllinn er fjórhjóladrifinn og með útstandandi brettaköntum og hlífðarplötum að framan og aftan til að verja hann betur í torfærum. Þetta er allt samkvæmt bókinni varðandi Cross Country bíla Volvo. Ekkert nýtt undir sólinni hvað það varðar. Stuðarar bílsins eru aðeins breyttir frá S90-bílnum en annars er útlitið og hönnunin sú sama. Bíllinn er eins og S90-bíllinn að innan og ekki leiðum að líkjast hvað það varðar.

Innanrýmið er mjög flott. Einfalt að mörgu leyti en klassískt og vandað er mjög til verka. Það er mikið leður- og viðarklæðning í innanrýminu sem gefur bílnum lúxustilfinningu. Þykk leðursætin eru afbragðsgóð og veita mikinn stuðning í akstrinum. Þau eru rafdrifin sem er annað merki um lúxusinn um borð.

Silfraður ræsihnappur

Ræsihnappurinn er á milli framsætanna sem er öðruvísi en maður á að venjast. Ökumaður snýr silfruðum takkanum til hliðar og þá ræsist bíllinn, síðan einfaldlega til baka þegar slökkt er á bílnum. Þetta gefur enn eina lúxustilfinninguna um borð. Stór snertiskjár í miðstokknum sér um langflestar aðgerðir sem þýðir að óvenjufáir aðgerðahnappar eru í innan rýminu. Þeir eru einfaldlega í skjánum, m.a. hiti og miðstöðin. Þetta er mjög sniðugt og smart. Svíarnir kunna þetta alveg. Ég býst við að Volvo-aðdáandinn Zlatan Ibrahimovic sé líka hæstánægður með þetta.

Bíllinn sem tekinn var í reynsluakstur er Volvo V90 Cross Country D4 í Inscription útfærslu með fjórhjóladrifi og afar þýðri 8 gíra sjálfskiptingu. Bíllinn er með tveggja lítra dísilvél með forþjöppu eins og í S90 bílnum sem skilar 190 hestöflum og togið er 400 Nm. Það er prýðilegt afl í bílnum en hægt er að fá hann með 235 hestafla vél sem gefur þá enn meira afl ef menn vilja. Þannig kostar hann hálfri milljón meira.

Mjög góður í akstri

Aksturseiginleikarnir eru mjög góðir í alla staði hvort sem ekið er á malbiki eða möl. Bíllinn er mjög þéttur og líður áfram áreynslulaust. það er þægilegt að vera með hærri sætisstöðu enda bíllinn aðeins hærri en S90. Talsverð eftirspurn er eftir svona bílum víða þar sem þeir bjóða upp á möguleika á að akstri við erfiðari aðstæður. Þetta er bíll sem hentar mjög vel við íslenskar aðstæður hvort sem er í ferðalagið um landið á sumrin eða í hinn oft á tíðum erfiða vetrarakstur.

Eyðslan er frá 5,4 lítrum miðað við blandaðan akstur samkvæmt tölum frá framleiðanda og er það mjög gott fyrir svo stóran og þungan bíl. CO2 losunin er 139 g/km.

Öryggið á oddinn hjá Svíunum

Farangursrýmið er gott og það er nóg pláss í skottinu. Samt hefði ég jafnvel haldið að það væri stærra miðað við lengd bílsins en Mercedes-Benz og Audi bjóða upp á bæði meira farangursrýni í sambærilegum bílum, Audi A6 Allroad og Mercedes-Benz E-Class All Terrain. Báðir þessir þýsku lúxusbílar eru keppinautar Volvo V90 Cross Country. Sænski bíllinn er samt fyrirtaks bíll í ferðalögin eða tómstundirnar.

Fjarstýrð opnun á skottlokinu er þægilegur búnaður. Bíllinn er mjög vel búinn nýjasta og tæknilegasta aksturs- og öryggisbúnaði eins og Volvo er þekkt fyrir. Þar ber hæst að nefna hjálparstýringuna, (Pilot Assist), veglínuskynjara, vegskiltalesara og nálægðarskynjara sem láta mann líða ansi öruggum um borð í sænsku kerrunni. Bíllinn er einnig með bakkmyndavél og bílastæðaaðstoð, þ.e. hann leggur sjálfur í stæði, sem veitir einnig mörgum hugarró.

Um 9 milljóna verðmiði

Volvo V90 Cross Country D4 kostar frá 8.490.000 kr. í Momentum útfærslu en í Inscription útfærslu kostar bíllinn frá 8.990.000 kr með 190 hestafla vélinni. Hann er síðan eins og áður segir hálfri milljón krónum dýrari með 235 hestafla vélinni. Búast má við Plug-In Hybrid útfærslu af bílnum innan tíðar eða svokallaðri T8 eins og bræður hans hafa. T8 útfærslan er 404 hestöfl og tengiltvinnvélin skilar þessum stóra bíl á 5,2 sekúndum í hundraðið. Á rafmagni eingöngu mun bíllinn geta keyrt 40 kílómetra leið.

 


Vefspjall