Fara í efni

Brimborg og Defend Iceland í samstarf um netöryggi

Brimborg og Defend Iceland í samstarf um netöryggi
Brimborg og Defend Iceland í samstarf um netöryggi

Brimborg hefur samið við netöryggisfyrirtækið Defend Iceland um aðgang að villuveiðigátt fyrirtækisins til að styrkja enn frekar varnir félagsins gagnvart netárásum, afla þekkingar á veikleikum tölvukerfa þess og miðla til eflingar netöryggis á Íslandi. Í samningnum felst að öryggissérfræðingar Defend Iceland munu nýta forvirkar öryggisaðgerðir til að leita að öryggisveikleikum, með því að herma aðferðir netárásarhópa og tölvuþrjóta, og tryggja þannig að hægt sé að laga veikleikana áður en þeir verða notaðir til netinnbrota.

Starfsfólk Brimborgar þekkir af eigin raun afleiðingar netárásar sem gerð var á félagið í ágúst 2023. Öflugt viðbragð við netárásinni með aðstoð færustu sérfræðinga og traust öryggisafrit gagna gerði það að endurreisn tók þó aðeins 48 tíma.

Reynsla af netárás er óskemmtileg en um leið er mikilvægt að nýta sér hana á jákvæðan hátt. Strax eftir netárásina settu stjórnendur Brimborgar sér það markmið að verða í hópi fremstu fyrirtækja í netöryggi. Fyrsti fasi á þeirri vegferð var 100 daga áætlun til koma netöryggi á framúrskarandi stað, sem lauk í desember 2023. Annar fasi hófst í febrúar 2024 og lauk í júní síðastliðnum með margvíslegum öryggisherðingum og mælingum á árangri með sérhæfðum hugbúnaðarlausnum.

Það kom sér vel því í maí síðastliðnum varð Brimborg fyrir hrinu umfangsmikilla dreifðra álagsárása (DDoS) í 15 daga samfellt, oft margar á dag, en þeim var öllum hrundið af nýjum netvörnum félagsins án nokkurra rekstrartruflana. Lærdómnum sem af þessu leiddi var miðlað til framleiðanda eldveggjarins sem þróaði og uppfærði nýjung til að efla enn frekar varnir við álagsárás. Öryggisherðingar hjá Brimborg voru einnig efldar í kjölfarið.

Með samningi um aðgang að villuveiðigátt Defend Iceland tekur Brimborg í notkun eina skilvirkustu og hagkvæmustu leiðina til að mæla árangur af uppfærslu netöryggis.

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar:

„Brimborg býr að þeirri óskemmtilegu en mikilvægu reynslu að hafa orðið fyrir netárás. Við viljum nýta reynsluna á jákvæðan hátt fyrir Brimborg og íslenskt samfélag. Forvirkar öryggisráðstafanir hafa aldrei verið mikilvægari en það er ekki síður mikilvægt að æðstu stjórnendur hafi yfirsýn yfir netöryggismál og þar spila gögn og skýr framsetning þeirra miklu máli. Samstarfið við Defend Iceland er mikilvæg forvörn í netöryggi en um leið mikilvæg leið til að mæla stöðu netöryggismála hverju sinni því netógnirnar breytast stöðugt.“

Theódór Ragnar Gíslason, stofnandi Defend Iceland:

„Það er mikilvægt fyrir Defend Iceland að hafa fjölbreytta flóru fyrirtækja í villuveiðigáttinni og því fögnum við mjög að Brimborg bætist í ört vaxandi hóp viðskiptavina, sem nú þegar inniheldur mörg öflugustu fyrirtæki landsins. Með félagi eins og Brimborg, sem starfar á bifreiða-, tækja- og bílaleigumarkaði, opnast nýir netárásarfletir þar sem öryggissérfræðingar okkar geta byggt upp þekkingu og deilt henni með samfélaginu. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig starfsfólk og stjórnendur Brimborgar tókust á við þá alvarlegu netárás sem þau urðu fyrir og við hlökkum til að vinna með þeim að því að skapa öruggara stafrænt samfélag.“

Um Defend Iceland

Defend Iceland er stofnað af Theódór Ragnari Gíslasyni, sem hefur umfangsmikla reynslu í tæknilegu netöryggi, með yfir 25 ára starfsreynslu á sviðinu. Hann er einn stofnenda öryggisfyrirtækisins Syndis og stofnaði ásamt öðrum nýsköpunarfyrirtækið Adversary sem var selt árið 2020 til ástralska öryggisfyrirtækisins Secure Code Warrior.

Villuveiðigáttir eins og Defend Iceland eru þekkt leið til að virkja öryggissérfræðinga sem herma aðferðir hakkara við leit að öryggisveikleikum og eru notaðar víða erlendis í því skyni.

Meðal samstarfsaðila Defend Iceland eru European Cybersecurity Competence Centre, Cert-IS, Fjarskiptastofa, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík. Verkefnið hlaut nýverið 380 milljóna króna styrk frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og 50 milljóna króna styrk frá Rannís.


Vefspjall