Fara í efni

Sjálfbærniuppgjör 2022

Heildstætt sjálfbærniuppgjör 2022
Brimborg birtir í annað sinn heildstætt sjálfbærniuppgjör fyrir rekstrarárið 2022 fyrir umfang 1, 2 og 3 fyrir öll rekstrarsvið félagsins á öllum starfsstöðvum um allt land með ítarlegum upplýsingum um áhrif starfseminnar á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS). Klappir Grænar Lausnir hafa aðstoðað við gerð sjálfbærniuppgjörsins, sem byggir á þeim upplýsingum sem Klappir hugbúnaðurinn hefur safnað saman yfir árið, ásamt upplýsingum sem safnað er í upplýsingatæknikerfum Brimborgar og upplýsingum frá þriðja aðila.

Brimborg er fyrst bíla- og atvinnutækjaumboða á Íslandi og fyrsta ökutækjaleigan á Íslandi sem gefur út heildstætt sjálfbærniuppgjör og nú í annað sinn og er þetta stóra vistskref í samræmi við umhverfisstefnuna Visthæf skref sem innleidd var fyrst árið 2007 og í samræmi við kjörorð félagsins, Öruggur staður til að vera á, sem kynnt var til sögunnar árið 2003.

Sjálfbærniuppgjörið fer eftir alþjóðlegum stöðlum um UFS mælikvarða (e. ESG standards) og hefur að geyma allar helstu upplýsingar um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti Brimborgar í samræmi við UFS-leiðbeiningar sem Nasdaq á Íslandi og Norðurlöndunum gáfu út árið 2019.

Grundvöllur sjálfbærniuppgjörsins
Leiðbeiningar Nasdaq eru byggðar á tillögum sem settar voru fram árið 2015 af Sameinuðu Þjóðunum, samtökum um sjálfbærar kauphallir (Sustainable Stock Exchange Initiative) og vinnuhópi hjá Alþjóðasamtökum kauphalla (World Federation of Exchange). Einnig er vísað í tilheyrandi viðmið GRI Standard (e. Global Reporting Initiative, GRI100-400) og meginviðmið (e. Reporting Principles, P1-10) alþjóðasáttmála Sameinuðu Þjóðanna (United Nations Global Compact, UNGC).

Klappir skipuleggja og haga vinnu sinni í samræmi við meginreglur Greenhouse Gas Protocol aðferðafræðinnar: Viðeigandi, Nákvæmni, Heilleiki, Samræmi og Gagnsæi. Gögn Brimborgar ehf. eru yfirfarin af Klöppum og metin eftir bestu vitund og nákvæmustu upplýsingum hverju sinni, að undanskildum gögnum tengdum félagslegum þáttum og stjórnarháttum.

Brimborg safnar gögnum yfir rekstrarárið með aðstoð hugbúnaðar Klappa um raforkunotkun, heita- og kaldavatnsnotkun, hirðu, flokkun og endurvinnslu úrgangs og notkun jarðefnaeldsneytis, auk þess sem niðurstöður samgöngukönnunar sem gerð er meðal starfsmanna eru lesnar inn í kerfi Klappa. Brimborg safnar upplýsingum um aðkeyptan flutning og dreifingu og viðskiptaferðir starfsmanna félagsins í gegnum upplýsingakerfi þess og upplýsingar koma einnig frá þriðja aðila.

Ítarlegar, tölulegar, niðurstöður sjálfbærniuppgjörs Brimborgar árið 2022 má nálgast með því að smella á viðeigandi hnapp.

Íslensk útgáfa sjálfbærniuppgörs Brimborgar 2022

English version of Brimborg sustainability report 2022

Umhverfismál (U)
Brimborg hefur unnið eftir umhverfisstefnunni Visthæf skref þar sem lögð er áhersla á raunhæf skref til mildunar neikvæðra áhrifa og styrkingar jákvæðra áhrifa á umhverfið. Félagið hefur skrifað undir loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar og fylgir lögum og reglum um áhrif reksturs félagsins á umhverfi sitt.

Umhverfisáherslur
Félagið hefur undanfarin ár lagt áherslu á:

 • Mælingu á magni úrgangs, flokkun og endurvinnslu hans
 • Mælingu á rafmagnsnotkun og rafmagnssparnað t.d. með fjárfestingum í LED lýsingu
 • Mælingu á heitavatnsnotkun og heitavatnssparnað í fasteignum sínum
 • Mælingu á kaldavatnsnotkun og sparnað í notkun þess
 • Við endurbætur fasteigna og nýbygginar að horfa til umhverfismildandi hönnunar og framkvæmda með t.d. BREEAM vottun, uppsetningu á sólarorkuveri og varmadælu
 • Mælingu á pappírsnotkun og minnkun á hennar með áherslu á stafrænar lausnir
 • Minnkun á notkun jarðefnaeldsneytis með fjárfestingu í ökutækjum fyrir rekstur félagsins sem eru knúin rafmagni að hluta eða öllu leiti
 • Innflutning og markaðssetningu á visthæfustu gerð ökutækja sem fáanleg eru frá birgjum félagsins

Umhverfisuppgjör 2022
Félagið hefur í nokkur ár, með aðstoð hugbúnaðar Klappa Grænna Lausna, mælt raforku, heita- og kaldavatnsnotkun, notkun jarðefnaeldsneytis og magn hirts úrgangs, flokkun hans og endurvinnslu. Stórt vistskref var tekið þegar félagið innleiddi í fyrsta sinn árið 2021 umhverfisuppgjör sem er hluti sjálfbærniuppgjörs 2021 og mælir áhrif starfsemi félagsins á umhverfið byggt m.a. á fyrrgreindum gögnum og í annað sinn nú árið 2022.

í uppgjörinu 2022 var bætt við flokki 13 í Umfangi 3 - útleigðar eignir. Innleiðing ferla fyrir stjórn og framkvæmdastjórn vegna umsjónar og stjórnunar á loftlagstengdri áhættu og innleiðing Umhverfisnefndar lokið 2022.

Áætluð vistskref ársins 2023

Brimborg vinnur að innleiðingu mælanlegra markmiða og aðgerðaráætlun í umhverfismálum. Þau vistskref sem stefnt er að á árinu 2023 eru m.a. innleiðing:

 • Mælanlegra markmiða byggða á umhverfisuppgjörum undanfarinna tveggja ára - í vinnslu
 • Viðeigandi Heimsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna - í vinnslu
 • Aukin áhersla á innflutning og markaðssetningu rafknúinna þungaflutningabíla og vinnuvéla
 • Mats á umhverfisáhrifum fasteigna félagsins og BREEAM vottunar við endurbætur og nýbyggingar sem er alþjóðlegt vottunarkerfi sem er tekið út af þriðja aðila - tvö BREEAM verkefni í gangi
 • Aðgerðaráætlunar til að ná markmiðum þar sem meðal annars verður lögð áhersla miðað við umsvif félagsins að draga úr:
  • Úrgangi
   • Bæta flokkun - unnið að uppsetningu flokkunarrýmis
   • Auka endurvinnslu - bætt flokkun með betra flokkunarrými og uppsetning vélar sem jarðgerir lífrænan úrgang
   • Pappírsnotkun
   • Rafmagnsnotkun - áfram unnið að innleiðingu nýtnari tækja og lýsingar og framleiðslu raforku með sól
   • Notkun á heitu vatni - verkefni hófst við innleiðingu á varmadælu til framleiðslu á heitu vatni
   • Notkun á köldu vatni
   • Notkun á jarðefnaeldsneyti - rafbílum fjölga í rekstrarflota og bílaleiguflota til að draga úr brennslu
   • Losun vegna samgangna starfsmanna - hvatning til starfsmannna og sérkjör við kaup á rafbílum og notkun annarra ferðamála
   • Losun vegna aðkeypts flutnings og dreifingar - aukin áhersla á flutning vöru til landsins með skipum

Félagslegir þættir (F)
Brimborg tekur samfélagslega ábyrgð alvarlega með skýrri stefnumörkun þar sem árlegt sjálfbærniuppgjör er framkvæmt samkvæmt alþjóðlegum stöðlum um UFS mælikvarða (e. ESG standards) sem hefur að geyma allar helstu upplýsingar um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti Brimborgar þar sem niðurstöðurnar byggja á gæðastefnu, mannauðsstefnu, jafnréttisstefnu, jafnlaunastefnu, umhverfistefnu, stjórnháttayfirlýsingu, starfsreglum stjórnar og persónuverndarstefnu. Samfélagsleg ábyrgð er samofin menningu félagsins í samræmi við kjarnagildi félagsins um virðingu, trúmennsku og umhyggju og markmið um góð mannleg samskipti. Félagið leggur mikla áherslu á að stjórnarmenn, stjórnendur og starfsmenn þess hlíti lögum og reglum í hvívetna, góðir stjórnarhættir séu viðhafðir, réttindi starfsmanna séu virt og gott viðskiptasiðferði sé í hávegum haft.

Framþróun í starfi og endurmenntun
Brimborg starfar í kviku samkeppnisumhverfi sem gerir miklar kröfur til starfsmanna og kallar á stöðugar breytingar á starfseminni sem krefst vinnustaðamenningar sem tekur breytingum fagnandi. Til að byggja undir þá menningu er lögð áhersla á að allir starfsmenn hafi möguleika á framþróun í starfi, þjálfun og annarri endurmenntun og við skipun í nefndir og starfshópa ræður fagþekking mestu um val einstaklinga, en stefnt skal að jöfnum hlut kynja þar sem því verður við komið.

Góður, sveigjanlegur vinnustaður
Lögð er áhersla á að starfsfólki líði vel, aðbúnaður sé góður, fyrirtækjamenningin sé jákvæð og hvetjandi og að það sé gott að koma til vinnu. Starfsmannafélög er virk á hverju viðskiptasviði. Unnið er markvisst að heilsuvernd og heilsueflingu starfsfólks. Öryggisnefndir eru starfandi og framkvæma reglulega áhættumat og innleiða úrbætur í kjölfarið. Brimborg hefur innleitt vinnutímastyttingu í samræmi við kjarasamninga og lögð er áhersla á að koma til móts við starfsfólk varðandi sveigjanlegan vinnutíma þar sem því verður við komið, þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsfólks og þarfa atvinnulífs.

Mannréttindi, barnaþrælkun og nauðungarvinna
Brimborg fylgir formlegri jafnréttisstefnu gætir þess að jafnrétti ríki á öllum sviðum og virðir almenn mannréttindi og gerir kröfu til þess að samstarfsaðilar félagsins virði jafnrétti og almenn mannréttindi. Starfsfólki sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis, þjóðernis, kynhneigðar, aldurs, trúar, lífs- eða stjórnmálaskoðana, hjúskaparstöðu, litarháttar, fötlunar, atgervis eða efnahags. Hjá félaginu starfar jafnréttisnefnd sem fylgist með að farið sé að lögum um jafnréttismál hjá fyrirtækinu og kannar réttmæti ábendinga um að frá þeim sé vikið og bregðast við með viðeigandi hætti.

Brimborg virðir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hvað réttindi barna og ungmenna varðar, fer að lögum og líður ekki barnaþrælkun né nauðungarvinnu.

Áreitni og ofbeldi
Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni eða annað ofbeldi, hvort sem er andlegt eða líkamlegt, líðst ekki, fyrirbyggjandi ráðstafanir viðhafðar og atvik af þessu tagi geta leitt til uppsagnar á starfi. Sá starfsmaður sem verður fyrir slíkri áreitni skal tilkynna mál án tafar skv. viðeigandi ferli.

Jafnrétti og jafnlaunavottun
Brimborg hefur innleitt mannauðsstefnu sem m.a. innifelur jafnréttisstefnu, jafnlaunastefnu með jafnlaunavottun, rétt allra til félagafrelsis og kjarasamninga og tryggir að allir starfsmenn hafi skriflegan ráðningarsamning byggðan á skriflegri starfslýsingu strax við upphaf starfs. Starfskjör stjórnar, stjórnenda og starfsfólks tryggir samkeppnishæf kjör sem hefur það að markmiði að laða að og halda í mjög hæft starfsfólk.

Í jafnlaunastefnu félagsins segir að kyn og aðrir persónueiginleikar sem ekki tengjast inntaki starfs eða frammistöðu í starfi skulu ekki hafa áhrif á laun eða launaþróun og að starfsfólk skuli njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt eða sambærileg störf. Launamunur verði aðeins skýrður á grundvelli mismunandi ábyrgðar, vinnuframlags, menntunar, starfsreynslu, hæfni, eðli starfs, verðmæti þess og frammistöðu í starfi.

Til að tryggja sanngirni og samræmi í launamálum hefur Brimborg innleitt jafnlaunastefnu og jafnlaunavottun sem byggir á henni og hafa stjórnendur aðgang að miðlægum viðmiðum um launabyggingu félagsins á hverjum tíma og launaþróun á ytri markaði og brugðist er við og unnið að umbótum, bæði í kjölfar reglulegrar rýni og í kjölfar ábendinga. Við auglýsingu starfa, ráðningar eða tilfærslur í starfi skal kynjaskipting höfð til hliðsjónar verði því viðkomið vegna framboðs með það að markmiði að stuðla að jöfnuði.

Allir eru hvattir til að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs hvort sem um er að ræða feður eða mæður, reynt er af fremsta megni að koma til móts við sveigjanlega töku fæðingarorlofs og lögð er áhersla á að starfsfólk eigi auðvelt með að snúa aftur til vinnu eftir töku fæðingarorlofs.

Áhersla er lögð á að samstarfsaðilar eins og verktakar og undirverktakar félagsins fari að lögum um réttindi starfsfólks síns sinna hvort sem um er að ræða launþega eða undirverktaka þeirra.

Markmið mannauðsstefnu Brimborgar tengjast nú þegar heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en Brimborg vinnu að því að formgera þá tengingu.

Stefnur og nefndir félagsins eru:

Mannauðsstjóri er ábyrgur fyrir mannauðsstefnu félagsins og hún er kynnt fyrir nýliðum og reglulega fyrir starfsfólki auk þess sem stefnur eru aðgengilegar í gæðakerfi félagsins og á vef þess.

Stjórnarhættir (S)
Stjórn hefur samþykkt formlegt skipulag félagsins, stjórnháttayfirlýsingu, starfsreglur stjórnar, gæðastefnu, mannauðsstefnu, jafnréttisstefnu, jafnlaunastefnu og persónuverndarstefnu og leggur ríka áherslu á að stjórnarmenn, stjórnendur og starfsfólk horfi til kjörorðs félagsins, Öruggur staður til að vera á og kjarnagilda þess um virðingu, trúmennsku og umhyggju. Stjórn, stjórnendur og starfsfólk Brimborgar skulu því viðhafa góða stjórnarhætti sem samræmast lögum, reglum, heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum með virðingu fyrir samkeppnislögum með það að markmiði að tryggja sterka innviði, gagnsæi og ábyrgð.

Góðir stjórnarhættir leiða til aukinnar ábyrgðar stjórnar, stjórnenda og starfsfólks félagsins gagnvart öllum hagaðilum eins og hluthöfum, viðskiptavinum, starfsmönnum, birgjum og samfélaginu í heild og minnkar líkur á hagsmunaárekstrum. Viðskiptasiðferði er í hávegum haft gagnvart öllum hagaðilum þar sem hvorki mútur né spilling er viðhöfð né liðin. Félagið hefur innleitt ferli og reglur til varnar peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem viðeigandi starfsmenn hafa undirritað. Félagið virðir réttindi til persónuverndar í samræmi við formlega persónuverndarstefnu.

Stjórnarmenn, stjórnendur og starfsmenn skulu ekki þiggja stórar gjafir, þjónustu, skemmtun eða persónulegan greiða sem með réttu mætti álykta að gæti haft áhrif á ákvarðanatöku og leitt til hagsmunaárekstra. Minniháttar gjafir er í lagi að þiggja og sama á við um boð um skemmtun sem sé innan marka viðurkenndrar viðskiptagestrisni en þó skal tilkynna slíkar gjafir eða boð til næsta yfirmanns. Fái starfsmenn tilboð sem ekki samrýmast lögum eða eðlilegum viðskiptaháttum eða jafnvel hótanir í tengslum við störf sín ber viðkomandi að tilkynna það yfirmanni sínum án tafar.

Starfsmönnum ber að tilkynna atvik til næsta yfirmanns eða beint til yfirstjórnar sem þeir telja að séu lögbrot eða á mörkum góðra viðskiptahátta eða góðs siðferðis og er fyllsta trúnaðar gætt sé þess óskað og gjaldi þeir þess á engan hátt í starfi.

Viðskiptavinir sem og aðrir hafa tækifæri í gegnum stafræna farvegi á vefsvæðum félagsins eða með svörun gæðakannana að koma ábendingum, hrósi eða kvörtunum á framfæri sem er strax komið í ferli með því að upplýsa viðeigandi starfsfólk og stjórnendur svo bæta megi ferli, vinnubrögð, þjálfun og þjónustu.

Félagið styrkir reglulega góð málefni sem tengjast á einhvern hátt starfsemi félagsins.

Uppfært 11.10.2023